Það voru margar breytingar á liði Stjörnunnar í gær, alls sjö talsins. Þrátt fyrir það náði liðið að sýna mjög góðan leik og stóð að lokum uppi sem sigurvegari, 1-3 lokatölur á Akranesi.
Guðmundur Kristjánsson, Hilmar Árni Halldórsson, Heiðar Ægisson, Daníel Laxdal og Óli Valur Ómarsson voru ekki í hópnum í gær.
Guðmundur Kristjánsson, Hilmar Árni Halldórsson, Heiðar Ægisson, Daníel Laxdal og Óli Valur Ómarsson voru ekki í hópnum í gær.
Lestu um leikinn: ÍA 1 - 3 Stjarnan
„Þeir sem geta ekki verið með á fimmtudaginn eru Óli Valur, Andri Adolphsson, Heiðar, Baldur Logi Guðlaugsson og Guðmundur Baldvin Nökkvason," staðfesti Jökull Elísabetarson. þjálfari Stjörnunnar, í samtali við Fótbolta.net í dag. Stjarnan á leik gegn Paide á fimmtudag. Um er að ræða seinni leik liðanna í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni.
Jóhann Árni Gunnarsson kom til baka í gær eftir meiðsli og lék sem bakvörður. Jökull segir að það þurfi að meta hversu mikið hann geti spilað.
„Gummi Kristjáns, Danni Laxdal og Hilmar gátu ekki spilað í gær en verða með á fimmtudaginn. Emil (Atlason), Örvar Logi (Örvarsson) og Robbi (Róbert Frosti Þorkelsson) voru á bekknum í gær. Planið var að þeir myndu spila sem allra minnst í gær, þeir spiluðu allir 20-30 mínútur og ættu að vera þokkalega ferskir í Eistlandi."
„Baldur Logi meiddist í gær og getur ekki spilað. Það er mikill skellur því það er búinn að vera rosalegur stígandi í honum."
Var það að algjörum varúðarráðstöfunum að Gummi Kristjáns, fyrirliði, spilaði ekki í gær?
„Ég hugsa að við hefðum getað spilað honum. Ég var hræddur með að hafa hann á bekknum og freistast til þess að setja hann inn á. Það er eiginlega það sama með Danna (Laxdal). Hugsunin er bara að gefa þeim þessa daga til að ná sér. Ég er ekki viss um að Gummi hefði getað beitt sér að fullu á fimmtudaginn ef hann hefði byrjað í gær."
Mennirnir sjö sem komu inn í liðið frá fyrri leiknum gegn Paide stóðu sig vel og sýndu að þeir gera allir tilkall í liðið.
„Ég er ekkert eðlilega ánægður með hópinn, geðveikt að hafa svona hóp. Við ákváðum að stilla upp mjög sókndjörfu liði; vorum bara með tvo varnarmenn: einn hafsent og einn bakvörð. Svo voru þetta bara kantmenn og framliggjandi miðjumenn. Við lögðum þetta bara þannig upp að við ætluðum bara að hafa boltann, ætluðum að spila okkar fótbolta. Við vissum að við værum að fara í rok og rigningu á þungum grasvelli. Nálgunin var bara að hafa gaman af því að spila fótbolta, skemmta okkur og stuðningsmönnum. Þannig fækkuðum við augnablikunum þar sem við erum viðkvæmir til baka, vorum þar með óvana menn. Mér fannst það ganga mjög vel."
Trúir ekki á heppni eða óheppni
„Þeir fengu auðvitað færi og Viktor fékk algjört dauðafæri í stöðunni 1-0. Ég trúi ekki á heppni og óheppni og segi statt og stöðugt við hópinn. Stundum er umfjöllunin þannig að við vorum óheppnir, en ég segi að það sé ekki rétt, segi við strákana að við gerðum ekki nóg. En á sama tíma leyfir maður sér að trúa að Viktor hafi mögulega verið orðinn þreyttur. Hann var búinn að elta allan leikinn, lítið búinn að komast í boltann. Þá kannski gerði það að verkum að hann var bara ekki 'sharp' í hlaupinu þegar það þurfti. Hann tekur færið með vinstri sem er mjög óvenjulegt fyrir þetta öflugan framherja," segir Jökull.
Stjarnan mætir Paide í Eistlandi á fimmtudag. Stjarnan leiðir með einu marki eftir fyrri leikinn.
29.07.2024 15:48
Þórarinn Ingi orðaður í burtu frá Stjörnunni - Jökull hrósar honum í hástert
Athugasemdir