Afturelding og Vestri eigast við í úrslitaleiknum í umspili Lengjudeildarinnar á morgun á Laugardalsvelli. Það er nýtt fyrirkomulag í ár þar sem eitt lið fer beint upp í gegnum deildina og eitt lið fer beint upp í gegnum umspil.
Þorlákur Árnason, fyrrum þjálfari Þórs, þekkir bæði liðin í úrslitaleiknum mjög vel. Við fengum hann til að rýna í þennan mjög svo áhugaverða leik sem sker úr um það hvort hvort þessara liða verði í Bestu deildinni á næsta tímabili.
Þorlákur Árnason, fyrrum þjálfari Þórs, þekkir bæði liðin í úrslitaleiknum mjög vel. Við fengum hann til að rýna í þennan mjög svo áhugaverða leik sem sker úr um það hvort hvort þessara liða verði í Bestu deildinni á næsta tímabili.
Styrkleikar Aftureldingar: Felast í mjög sterkum leikmannahópi, mjög skýrum leikstíl liðsins og þeirri staðreynd að þjálfarinn hefur verið lengi með liðið. Leikstíll liðsins er mjög skýr og minnir svolítið á Gróttulið Óskar Hrafns árið 2019. Þeir reyna að ná yfirtölu með boltann ýmist aftast á vellinum með vel spilandi markmanni eða nær marki andstæðingana ef það hentar. Þetta framkvæma þeir oftast með því að nota margar sendingar enda eru þeir það lið í deildinni sem heldur boltanum lengst. Afturelding getur þó einnig sótt hratt enda með beinskeittan framherja í Arnóri Gauta og svo eru þeir einnig mjög sterkir í föstum leikatriðum þar sem Ásgeir Marteinsson er í aðalhlutverki. Afturelding er með sterka lykilleikmenn í þeim Yevgen markmanni, Rasmus í miðverðinum og þeim Ásgeiri Marteins á kantinum og Arnóri Gauta frammi. Þetta finnst mér vera mikilvægustu leikmenn liðsins. þetta eru allt leikmenn sem komu til liðsins fyrir þetta tímabil. Maggi Már er er á sínu 5 tímabili í Lengjudeildinni með liðið, hin árin hefur Afturelding verið í 8-10.sæti og á þessum tíma hefur þjálfarinn og félagið þróast mikið. Ég tel það styrkleika þegar að farið er í svona úrslitaleik að þjálfarinn sé búinn að vera lengi með liðið.
Styrkleikar Vestra: Líkt og með Aftureldingu þá er Vestra liðið mjög vel mannað og hópurinn er gríðarlega reynslumikill, leikstíll liðsins er skýr og þá er liðið á mikilli siglingu með 7 sigra í röð og sjálfstraust liðsins ætti því að vera mikið. Helsti styrkleiki Vestra leikfræðilega séð, er varnarleikur liðsins. Liðið spilar þéttan varnarleik og leikir liðsins hafa verið mjög 'lokaðir' í sumar enda liðið fékk fæst mörk allra liða á sig í deildinni. Handbragð þjálfarans eru mjög greinileg á liðinu og svipar mjög til leikstíls Kórdrengja síðastliðin ár. Athyglisvert að liðið hefur unnið 7 leiki og gert eitt jafntefli eftir að Marvin kom inn í markið seinni hluta sumars. Hryggjarstykki liðsins með Gustav og Morten í miðverði og svo Nacho og Tarik á miðjunni er mjög massívt. Liðið er þó einnig með gæði fram á við en þeir Benó og Túfa hafa skorað nær helming allra marka liðsins í sumar. Vestramenn eru sterkir í skyndisóknum þar sem að Benó er lykilmaður enda mjög sterkur einn á einn, aðrir sóknarmöguleikar koma mest eftir fyrirgjafir og uppsett atriði.
Fylgjast með hjá Aftureldingu: Elmar Kári hefur bætt sig gríðarlega mikið í sumar, frábær 1v1 og er með góðan fót og ef Vestramenn hafa ekki góðar gætur á honum þá verða þeir í vandræðum. Ivo Braz er einnig ofboðslega skemmtilegur leikmaður, sterkur og áræðinn, góður 1v1 og erfitt að eiga við á hans degi.
Fylgjast með hjá Vestra: Vestri byggir auðvitað mest á liðsheildinni en Benó er frábær 1v1 og er hvað bestur þegar lið eru í ójafnvægi líkt og gerist í skyndisóknum. Þá verður gaman að fylgjast með Nacho og Tarik inni á miðjunni hjá Vestra, ef það er einhver veikleiki í Aftureldingarliðinu þá væri það helst inni á miðjunni og það gætu Vestramenn nýtt sér.
Spáin:
Úff. Mjög erfitt að spá fyrir um úrslit. Afturelding er með sterkara byrjunarlið að mínu mati en Vestri er með mjög sterka liðsheild og bullandi sjálfstraust. Ég held að ef að Afturelding nær að stoppa Benedikt Warén þá vinna þeir þennan leik. En stærstu veikleikar Aftureldingar eru þegar þeir tapa boltanum og þar liggja stærstu kostir Vestra sóknarlega. Liðið sem skorar fyrst vinnur, Afturelding kemst yfir með marki eftir uppsett atriði Ásgeirs og þeir sigla þessu heim á endanum 2-1.
Athugasemdir