Fyrrum fótboltamaðurinn Franck Ribery setti inn einfalt og stutt innlegg um hans skoðun á vali á besta leikmanni ársins, Ballon d'Or, á Instagram-síðu sinni.
Rodri var akkerið í liði Manchester City sem vann Englandsmeistaratitilinn á síðasta tímabili, en hann var einnig á miðsvæðinu í spænska landsliðinu sem vann Evrópumótið í sumar.
Talið var líklegast að Vinicius Junior myndi hreppa verðlaunin eftir að hafa komið að 35 mörkum er Real Madrid vann La Liga og Meistaradeildina á síðasta tímabili.
Báðir leikmenn áttu frábært tímabil og báðir vel að verðlaununum komnir, en Real Madrid tók þessu vali illa. Vinicius, Jude Bellingham, Carlo Ancelotti og Florentino Perez ætluðu allir að mæta á verðlaunahátíðina í gær en hættu við eftir að þeir fréttu að Rodri myndi vinna.
Margir hafa tjáð sig um valið og þar á meðal Franck Ribery sem skrifaði Ballon d'Or og bætti við hlæjandi lyndistákni í Instagram-sögu sína.
Óvíst er hvort Ribery sé að hlæja að viðbrögðum Real Madrid við valinu eða hvort hann skilji vel hvað Vinicius sé að ganga í gegnum. Viðtal hans í Gazzetta dello Sport gæti mögulega gefið betri mynd af því sem hann er að meina.
Ribery taldi sig verðskulda að vinna verðlaunin árið 2013 en Cristiano Ronaldo, sem var þá á mála hjá Real Madrid, vann verðlaunin. Ribery telur valið hafa verið pólitískt.
„Það var ósanngjarnt. Ég átti ótrúlegt tímabil og átti að vinna þetta. Þeir framlengdu tímann til að skila inn atkvæðum og eitthvað sérstakt átti sér stað. Mér leið eins og þetta væri pólitískt val,“ sagði Ribery við Gazzetta dello Sport á sínum tíma.
Ronaldo vann Ballon d'Or með 27,99 prósent atkvæða, Messi í öðru með 24,72 prósent og síðan Ribery í þriðja með 23,36 prósent atkvæða.
Athugasemdir