„Við höfum lent í ýmsum erfiðum aðstæðum og þetta eru bara aðrar slíkar. Við felum okkur ekki á bak við þær, svona er þetta bara. Bæði lið þurfa að spila á þessum velli," sagði Robbie Keane, stjóri Maccabi Tel Aviv, á fréttamannafundi fyrir leik liðsins gegn Breiðabliki í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Hann vísar þar í breytingar á leikstað og leiktíma sem UEFA tók ákvörðun með í gærkvöldi. Ákveðið var að leikurinn færi fram á Kópavogsvelli klukkan 13:00 en upprunalega átti hann að hefjast klukkan 20:00 og fara fram á Laugardalsvelli.
Hann vísar þar í breytingar á leikstað og leiktíma sem UEFA tók ákvörðun með í gærkvöldi. Ákveðið var að leikurinn færi fram á Kópavogsvelli klukkan 13:00 en upprunalega átti hann að hefjast klukkan 20:00 og fara fram á Laugardalsvelli.
„Þeir eru auðvitað með forskot því þeir spila hér og eru vanir vellinum. Þess vegna æfum við á honum í dag og skoðum hann. Æskilegast væri að spila á grasi. Ég held að allir sem spila fótbolta vilji það en svona er þetta. Við höldum áfram eins og við gerum alltaf,“ sagði Keane á fréttamannafundi á Kópavogsvelli í dag.
Samkvæmt heimildum mbl.is eru forsvarsmenn hjá Maccabi ósáttir með að leikurinn hafi verið færður á Kópavogsvöll. Þeir eru einnig sagðir ósáttir við breyttan leiktíma en leikurinn hefst klukkan 13:00 í stað 20:00.
Í frétt mbl.is segir að samkvæmt heimildum miðilsins muni Maccabi leggja inn formlega kvörtun. Keane var á fundinum spurður hvort að félagið hefði lagt fram formlega kvörtun til UEFA vegna breytinganna.
„Satt best að segja hef ég ekki hugsað um það í eina sekúndu, það er ekki í mínum verkahring. Starf mitt er fólgið í því að undirbúa liðið sem allra best fyrir þennan leik og reyna að ná í jákvæð úrslit á morgun.“
Hann var spurður hvort að breytingin á undirlagi minna en tveimur sólarhringum fyrir leik breyti eitthvað undirbúningi liðsins.
„Nei, við höldum okkar striki. Við undirbúum okkur eins. Við einbeitum okkur að sömu smáatriðunum, sömu hlutunum sem við höfum verið að vinna í. Það að þetta sé gervigrasvöllur breytir því ekki. Ég er viss um að margir leikmanna minna hafi spilað á gervigrasi í gegnum tíðina. Ég hef gert það og það er ekki eins, en við ætlum svo sannarlega ekki að nota það sem afsökun,“ sagði Keane.
Athugasemdir