Heimild: RÚV
Í gær var leikur Breiðabliks og Maccabi Tel Aviv í Sambandsdeildinni færður frá Laugardalsvelli og yfir á Kópavogsvöll. Leikurinn mun fara fram klukkan 13 á morgun fimmtudag en ástæðan fyrir því hversu snemma dags er leikið er sú að flóðljósin í Kópavogi uppfylla ekki kröfur.
Kristinn V. Jóhannsson vallarstjóri Laugardalsvallar hefur ásamt starfsfólki sínu unnið hörðum höndum að því að hafa Laugardalsvöll leikfæran en UEFA tók þá ákvörðun að færa leikinn á gervigras.
Kristinn V. Jóhannsson vallarstjóri Laugardalsvallar hefur ásamt starfsfólki sínu unnið hörðum höndum að því að hafa Laugardalsvöll leikfæran en UEFA tók þá ákvörðun að færa leikinn á gervigras.
„Völlurinn er í toppstandi í dag. Jarðvegshitinn er í góðum 5-6 gráðum. Lofthiti innan pulsunnar er í 10-12 gráðum. Þetta var á áætlun hjá okkur og leit allt vel út. Það er þessi óvissa á leikdag sem hefur ýtt undir þessa ákvörðun UEFA. Þessi frostkafli sem er spáð á fimmtudegi," segir Kristinn í viðtali við RÚV.
Kristinn segir að UEFA hafi metið það ógerlegt að spila leikinn á Laugardalsvelli en ákvörðunin kom honum á óvart.
„Ég tel að þeir fari eftir ákveðnu vinnuplaggi og ákveðnum stöðlum við velli. Ég held að þeir hafi innst inni vonast til að við gætum spilað hérna, þrátt fyrir að við og Breiðablik höfum ítrekað nefnt það við þá að þetta væri erfitt í nóvember. Það hefði ekki átt að koma UEFA á óvart að það væri kalt í nóvember."
Breiðablik er án stiga á botni riðilsins þegar tvær umferðir eru eftir. Kópavogsliðið á ekki lengur möguleika á því að komast áfram.
Athugasemdir