Liverpool ætlar að fá þrjá - Chelsea vill Rogers - Ancelotti að taka við Brasilíu
   mið 30. apríl 2025 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þá getum við náð fyrirheitna landinu"
Lengjudeildin
Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar.
Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þróttarar fagna marki í fyrra.
Þróttarar fagna marki í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jakob Gunnar er einn af þeim fáu leikmönnum sem gekk í raðir Þróttar í vetur.
Jakob Gunnar er einn af þeim fáu leikmönnum sem gekk í raðir Þróttar í vetur.
Mynd: Þróttur R.
Venni er á leið inn í sitt annað tímabil með Þrótt.
Venni er á leið inn í sitt annað tímabil með Þrótt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Tímabilið leggst vel í okkur, held að við komum vel undan vetri," segir Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar, í samtali við Fótbolta.net fyrir tímabilið sem er framundan.

Þrótturum er spáð fjórða sæti Lengjudeildarinnar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.

„Í svona spám renna menn oftast blint í sjóinn, en niðurstaðan kemur mér ekkert endilega á óvart. Í fyrra var okkur spáð 8. sæti svo eitthvað telja spekingarnir að við höfum bætt okkur á milli ára, sem er bara fínt. Síðustu tvö ár hafa liðin í 4. sæti komist upp í Bestu deildina, svo það er góðs viti ef þessi spá rætist."

Lærðum mikið
Venni er að fara inn í sitt annað tímabil sem þjálfari Þróttar en hann segir liðið hafa tekið mikinn lærdóm frá síðasta tímabili.

„Við lærðum mikið sem hópur, upplifðum hæðir og lægðir. En jafnt og þétt fannst mér liðið bæta sig og frammistaðan var heilt yfir góð allt tímabilið. Í öllum helstu lykiltölum sem hægt er að greina í fótbolta vorum við í topp fimm í deildinni, við þurfum að halda því við og bæta við klókindum til að safna stigum í samræmi við frammistöðuna," segir Sigurvin.

Það hefur gengið fínt hjá Þrótturum í vetur.

Almennt hefur gengið fínt, hópurinn hefur haldist að mestu heill heilsu og aðstæður til æfinga hafa verið ljómandi góðar. Leikmenn hafa æft vel og sýnt mikinn metnað frá degi eitt. Æfingaferð gekk vel og æfingamótin gengu betur í ár en í fyrra."

Rólegri en önnur lið
Breytingarnar á leikmannahópnum eru ekki sérlega miklar hjá Þrótti í vetur.

„Af þeim 18 leikmönnum sem spiluðu flestar mínútur hjá okkur í fyrra eru 14 leikmenn ennþá hjá okkur. Leikmannaveltan á milli ára er því ekki mikil, við erum með sterkan kjarna og liðsheild sem við treystum á, svo við höfum verið rólegri en mörg önnur lið á markaðnum. Þar að auki vinnum við fyrst og fremst eftir þeirri línu að búa til okkar eigin leikmenn og nokkrir ungir leikmenn hafa komið sterkir inn á undirbúningstímabilinu. Vissulega höfum við reynt að kroppa í nokkra stærri bita sem við teljum passa vel inn í okkar konsept en engin stór kaup hafa dottið inn

Þróttur vann 2-3 sigur á Völsungi í hörkuleik í bikarnum á dögunum. Gefur sá leikur ykkur mikið?

„Fyrst og fremst hugrekki og trú á okkur sjálfa. Við vorum komnir með bakið uppvið vegg, 2-0 undir á útivelli, en leikmennirnir héldu áfram að gera það sem var lagt upp með í upphafi og trúðu að það myndi skila sér, sem það og gerði. Það komu upp mörg augnablik í leiknum þar sem liðið hefði getað misst hausinn eða farið á taugum en menn héldu gleðinni og trúnni og það skilaði sér í sigri að lokum. Tökum það með okkur," segir Venni.

Giska á að þetta verði svipað
Það má alveg reikna með því að Lengjudeildin verði spennandi og skemmtileg í sumar. Hvernig sérð þú fyrir þér að deildin spilist?

„Það er ómögulegt að segja. Eins og staðan er núna myndi ég giska á að þetta verði svipað og í fyrra, jafnir og spennandi leikir í hverri einustu umferð. Liðin sem féllu úr Bestu deildinni eru sjálfkrafa alltaf líkleg til að vera sterkust, en öll liðin þar á eftir eru á svipuðu reki myndi ég segja."

Hver eru ykkar markmið fyrir sumarið?

„Við lítum á okkur sem lið í vexti og því er fyrsta markmið að gera betur í ár en í fyrra. Í fyrra vorum við fimm stigum frá umspilssæti og sex stigum frá Aftureldingu, liðinu sem komst að lokum upp. Ef við náum þessu markmiði og vinnum upp þennan litla mun þá getum við náð fyrirheitna landinu," segir Venni og bætti við að lokum:

„Ég skora á þá sem halda utan um og fjalla um Lengjudeildina að gera betur í sumar en síðustu ár varðandi umfjöllun og sýningar á leikjum. Mér finnst umfjöllunin hafa verið rýr og útsendingar oft mjög daprar og lítið lagt í þær. Gæði leikmanna og liða deildarinnar eru meiri en margir halda, og má þá t.d. benda á að liðin sem komust upp 2023 héldu sér bæði uppi í bestu deildinni 2024, og að liðin sem komust upp í fyrra sitja bæði í fínum málum um miðja deild núna eftir 4 umferðir í bestu. Þar fyrir utan hefur Lengjudeildin verið ótrúlega jöfn, spennandi og stórskemmtileg síðustu ár, og stefnir í að það sama verði uppi á teningnum í ár."

„Annars hress bara. Lifi!"
Athugasemdir
banner
banner