mið 30.apr 2025 11:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeildina: 4. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Þrótti er spáð fjóra sæti deildarinnar.
Njörður og bróðir hans Hlynur eru sterkir í hjarta varnarinnar.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. ?
2. ?
3. ?
4. Þróttur R., 166 stig
5. Þór, 152 stig
6. Njarðvík, 136 stig
7. ÍR, 112 stig
8. Grindavík, 101 stig
9. Leiknir R., 100 stig
10. Fjölnir, 82 stig
11. Selfoss, 49 stig
12. Völsungur, 24 stig
4. Þróttur R.
Þjálfarar og fyrirliðar deildarinnar hafa mikla trú á Þrótti fyrir komandi keppnistímabil. Eftir að hafa fallið niður í 2. deild sumarið 2021, þá hefur gengið vel hjá Þrótti síðustu ár og þetta hefur verið á uppleið í Laugardalnum eftir að hafa fengið ákveðna vakningu. Þróttarar lentu í áttunda sæti sumarið 2023 og svo í sjöunda sætinu í fyrra, en þjálfarar og fyrirliðar búast við því að þeir taki næsta skref í sumar og færist ofar í töflunni. Lið Þróttar hefur litið vel út á undirbúningstímabilinu og vegferðin hjá þjálfara liðsins virðist vera á býsna góðum stað. Það verður gaman að sjá hvort þessi spá muni rætast og Þróttur verði í toppbaráttu, komist í umspilið og blandi sér í baráttuna um að fara upp í Bestu deildina.
Þjálfarinn: Sigurvin Ólafsson er að fara inn í sitt annað tímabil sem þjálfari Þróttar en hann tók við liðinu eftir tímabilið 2023. Sigurvin þjálfaði KV frá 2018-2021 og kom liðinu úr 3. deild upp í Lengjudeildina. Hann var síðan aðstoðarþjálfari hjá KR og síðast aðstoðarþjálfari FH áður en hann tók við Þrótti. „Þeir eru að vinna þetta hægt og bítandi upp, en ég er mjög spenntur að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Þetta er stórt hverfi og það er saga þarna," sagði Sigurvin þegar hann tók við Þrótti og hefur gengið fínt hingað til. Sigurvin var í vetur orðaður við ÍBV en hann ákvað að vera áfram í Laugardalnum og það eru stuðningsmenn Þróttar væntanlega mjög ánægðir með.
Álit Badda
Baldvin Már Borgarsson, þjálfari Árbæjar, er sérfræðingur Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina. Hann rýnir í öll liðin fyrir tímabilið sem er framundan.

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verið á skemmtilegri vegferð
„Þróttarar hafa verið á skemmtilegri vegferð undanfarin ár og tekið framfaraskrefin upp og áfram undir stjórn Venna með mikið af ungum strákum og flottum kjarna af heimamönnum."
„Þróttarar voru nálægt umspilinu í fyrra og á því verður engin breyting í ár að mínu mati, það verður áhugavert að sjá Jakob Gunnar spila með flottu Lengjudeildarliði eftir að hafa farið hamförum í 2. deildinni í fyrra."
„Þróttarar munu skemmta Gunna Helga, Dóra Gylfa, Birni Hlyni, Sóla Hólm, Bjarna í Papco og fleiri Kötturum í allt sumar, það er á hreinu!"
Leiðin úr Lengjunni er hlaðvarpsþáttur tileinkaður næst efstu deild karla í fótbolta. Þáttarstjórnendur eru Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson og Sölvi Haraldsson. Þeir velja tvo lykilmenn og einn sem gaman verður að fylgjast með úr hverju liði í Lengjudeildinni.
Lykilmenn: Kári Kristjánsson og Jakob Gunnar Sigurðsson
Kári Kristjánsson átti frábært síðasta tímabil fyrir Þrótt og var meðal annars í liði ársins þrátt fyrir að missa af umspilinu; hann var bara það góður. Hann er þeirra besti maður og í raun ótrúlegt að Þróttur hafi náð að halda í hann. Hann þarf að byggja á gott tímabil og fær vonandi meiri hjálp í ár en þá verða Þróttarar til alls líklegir. Það verður virkilega áhugavert að fylgjast með framþróun Jakobs Gunnars með Þrótti í sumar. Skoraði eins og óður maður í annari deild í fyrra og fer núna upp um eitt ‘level’. Nær hann að halda dampi og halda áfram að skora í Lengjudeildinni? Það er það sem Þróttarar eru að veðja á og þeir hafa í gegnum tíðina verið naskir að veðja á unga sóknarkrafta. Ef hann mun eiga góðan fyrri hluta þá er aldrei að vita nema KR kalli hann aftur úr láni í sumarglugganum.
Gaman að fylgjast með: Liam Daði Jeffs
Var að koma skemmtilega inn í liðið á síðasta tímabili og skoraði nokkur mikilvæg mörk fyrir Þróttara. Hann fær væntanlega aðeins stærra hlutverk í ár og verður gaman að fylgjast með honum í sumar. Er með hárrétt hugarfar og alla burði til þess að stíga enn frekar upp og valda meiri ursla fyrir mótherja Þróttara í sumar. Ef Jakob Gunnar verður kallaður aftur til KR eða nær ekki að byrja vel þá er ljóst að Liam Daði Jeffs verður klár í keflið.
Komnir:
Jakob Gunnar Sigurðsson frá KR (á láni)
Sigfús Árni Guðmundsson frá Fram (á láni)
Benjamín Jónsson frá Fram (var á láni hjá Þrótti V.)
Eiður Jack Erlingsson frá Þrótti Vogum (var á láni)
Farnir:
Jörgen Pettersen í ÍBV
Sveinn Óli Guðnason í Hauka
Sigurður Steinar Björnsson (var á láni)
Ágúst Karel Magnússon
Kostiantyn Iaroshenko í Hauka
Izaro Sanchez

Fyrstu þrír leikir Þróttar:
2. maí, Þróttur R. - Leiknir R. (AVIS völlurinn)
9. maí, Keflavík - Þróttur R. (HS Orku völlurinn)
16. maí, Þróttur R. - Grindavík (AVIS völlurinn)
Athugasemdir