
Það var hörð samkeppni um að komast í íslenska markvarðahópinn fyrir HM. Frederik Schram, leikmaður Roskilde í dönsku B-deildinni, varð fyrir valinu og er þriðji markvörður liðsins.
„Ég var mjög glaður og stoltur. Það var gaman að fá þessar fréttir. Nú hlakka ég bara til að undirbúa mig með strákunum fyrir HM," segir Frederik.
Hann viðurkennir að hafa ekki búist við því að vera í hópnum.
„Það er mikil samkeppni enda góðir markmenn sem hafa verið í hópnum. Þetta kom á óvart en ég er mjög ánægður."
Við báðum honum að meta styrkleika dönsku B-deildarinnar.
„Þetta er mjög líkamlega sterk deild og þau lið sem hafa fallið úr efstu deild hafa mörg lent í vandræðum þarna. Þarna snýst þetta meira um líkamlegan styrk og fótboltinn er beinskeyttari. Það er mjög jákvætt fyrir mig. Ég þarf alltaf að vera vakandi í föstum leikatriðum og fyrirgjöfum og vera tilbúinn að sýna hvað ég get," segir Frederik.
Frederik vonast til að fá mínútur í komandi vináttulandsleikjum gegn Noregi og Gana.
„Ég vonast alltaf til að spila en ef ekki þá styð ég Hannes og Rúnar eins mikið og ég get," segir Frederik en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan. Þar ræðir hann meðal annars um íslenska veðrið og fleira.
Lykildagar Íslands í júní:
LEIKUR 2. júní Noregur (Laugardalsvöllur) - Vináttuleikur
LEIKUR 7. júní Gana (Laugardalsvöllur) - Vináttuleikur
9. júní Flogið til Rússlands (Gelendzhik)
LEIKUR 16. júní Argentína (Moskva) - HM
LEIKUR 22. júní Nígería (Volgograd) - HM
LEIKUR 26. júní Króatía (Rostov) - HM
Athugasemdir