Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 30. júní 2022 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Wilshere að snúa aftur til Arsenal?
Jack Wilshere
Jack Wilshere
Mynd: Getty Images
Enski miðjumaðurinn Jack Wilshere gæti verið á leið aftur til Arsenal en nú í öðru hlutverki en áður. Þetta kemur fram í enska blaðinu Evening Standard.

Wilshere, sem er þrítugur, er farinn frá danska félaginu AGF eftir að hafa eytt síðustu mánuðum þar í leit að spiltíma en hann er farinn að skoða næstu skref ferilsins.

Hann er uppalinn hjá Arsenal og þótti eitt mesta efni Englands, en meiðsli höfðu mikil áhrif á ferilinn, sem hefur verið á hraðri niðurleið síðustu ár.

Englendingurinn hefur verið að íhuga það að fara út í þjálfun og hjálpaði hann meðal annars til á æfingum hjá Arsenal samhliða því að æfa áður en hann samdi við AGF.

Evening Standard segir nú að Wilshere gæti verið á leið aftur til Arsenal, en nú sem þjálfari. Arsenal er búið að missa tvo þjálfara U18 og U23 ára liðsins og er Wilshere nú í viðræðum um að taka við stöðu þjálfara.

„Ég var að þjálfa á hverjum degi með U18 og U23 ára liðinu og elskaði hverja einustu mínútu. Þegar ég var leikmaður undir stjórn Arsene Wenger þá langaði mig aldrei að vera þjálfari. Ég hlustaði bara á hann og lærði af honum, en þegar ég byrjaði fyrst að þjálfa þá fylgdist ég með Mikel Arteta og hann hjálpaði mér, ásamt ungu leikmönnum og það hvatti mig til að fara út í þjálfun."

„Ég var auðvitað áhyggjufullur og hræddur hvað varðar framtíðina því ég vissi ekki hvernig það myndi líta út fyrir mig. Þegar ég fór svo að þjálfa daglega þá breyttist viðhorf mitt. Ég naut þess og gæti alveg séð fyrir mér að gera þetta. Það er framtíð í þessu fyrir mig,"
sagði Wilshere við Telegraph í síðasta mánuði.
Athugasemdir
banner
banner