Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 30. júlí 2021 17:30
Elvar Geir Magnússon
„Hann mun fara í stærra félag en Leicester"
Patson Daka.
Patson Daka.
Mynd: Getty Images
Í æfingaleik með Leicester.
Í æfingaleik með Leicester.
Mynd: Getty Images
Margir spennandi leikmenn hafa komið úr Red Bull Salzburg síðustu ár og nægir að nefna Erling Haaland og Sadio Mane í því samhengi. Nýjasti leikmaðurinn frá félaginu, Patson Daka, er ákveðinn í því að sanna sig hjá Leicester en hann var keyptur til enska úrvalsdeildarfélagsins á 22 milljónir punda.

Þessi 22 ára sóknarmaður frá Sambíu er ekki þektkur utan heimalandsins og Austurríkis en hefur skorað 61 mark í öllum keppnum fyrir félagslið sitt síðustu tvö tímabil.

Chris Kaunda er maðurinn sem uppgötvaði Daka í Sambíu og þjálfaði hann svo hjá U17 landsliðinu.

„Ég var að vinna í því verkefni að finna hæfileikaríka unga leikmenn í landinu. Við heimsóttum öll tíu héruð Sambíu 2012 og völdum svo 60 unga fótboltaleikmenn. Patson var bestur af þeim," segir Kaunda.

„Það varð strax ljóst að hann hefði sérstaka eiginleika. Hann var með hraða, kraft, var góður í loftinu og gat skotið með báðum fótum. Sá hægri var samt greinilega sterkari. Hann var með allt til að verða góður sóknarmaður."

„Það sem gerir Patson svona sérstakan er að hann hlustar vel g er fljótur að læra. Hann vill alltaf bæta sig og hlustar á ráðleggingar þjálfara. Hann lætur ekki fara mikið fyrir sér. Faðir hans lést þegar hann var lítill og hann ólst upp með móður sinni."

Sambía komst í Afríkukeppni U17 landsliða í fyrsta sinn og gat þar helst þakkað Daka sem skoraði fimm mörk í fjórum leikjum. Á mótinu sjálfu skoraði hann tvisvar en það dugði ekki til að koma liðinu upp úr riðlakeppninni.

Þegar hann kom heim af mótinu fékk einn sigursælasta lið landsins, Power Dynamos, hann í sínar raðir. Njósnarar Red Bull Salzburg voru þegar farnir að fylgjast með honum.

„Patson skoraði og skoraði. Við fórum á mót á Ítalíu og hann skoraði tvö gegn Brasilíu, tvö gegn japan og þrennu gegn Bandaríkjunum. Hann hataði að tapa. Eitt sinn töpuðum við í vítaspyrnukeppni og hann grét," segir Kaunda.

„Ég býst við því að hann verði stórstjórna og Leicester City er bara eitt skref á leiðinni upp. Stærra félag en Leicester mun kaupa hann, munið þessi orð mín."

Daka var sautján ára þegar hann var keyptur til Red Bull Salzburg og þar fór hann upphaflega í varaliðið og var fljótur að heilla. Hann var ekki lengi að vinna sig upp í aðalliðið og tók við keflinu sem aðalmaðurinn eftir að Haaland fór til Dortmund.

Daka skoraði 27 mörk í 28 leikjum á síðasta tímabili og hjálpaði Red Bull Salzburg að vinna austurríska meistaratitilinn fjórða árið í röð. Hann var valinn leikmaður tímabilsins í austurrísku Bundesligunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner