Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mið 30. nóvember 2022 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Bale ætlar ekki að hætta: Merkilegt afrek
Mynd: EPA

Gareth Bale gaf kost á sér í viðtal eftir þriggja marka tap Wales gegn Englandi í lokaumferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í gærkvöldi.


Wales var þar með slegið úr leik og endar mótið með eitt stig úr þremur leikjum og markatöluna 1-6. Bale segir að leikmenn séu stoltir enda var þetta aðeins í annað sinn í sögunni sem Wales kemst á HM, eftir að hafa farið á lokamótið 1958.

„Við erum allir svekktir en samt sem áður stoltir af afrekinu að komast á þetta mót. Fótbolti er erfið íþrótt og stundum gengur manni ekki eins vel og maður hafði vonast. Það gerðist hjá okkur, við stóðumst ekki okkar eigin væntingar," sagði Bale við BBC One.

„Ef þið hefðuð sagt okkur fyrir tveimur árum að við værum á leið á HM þá hefðum við varla trúað því. Þetta er merkilegt afrek.

„Við erum svekktir að hafa ekki spilað betur en það gekk bara ekki upp. Við komumst upp úr riðli á síðustu tveimur Evrópumótum og þá hækka væntingarnar en þannig virkar fótbolti ekki."

Bale er 33 ára gamall og samningsbundinn Los Angeles FC í MLS deildinni. Hann ætlar ekki að hætta að spila með landsliðinu á næstunni.

„Ég mun halda áfram að spila eins lengi og ég get og eins lengi og þjálfarinn vill nýta mig. Það er ný undankeppni sem byrjar í mars og þá förum við aftur á fullan kraft."

Bale hefur skorað 41 mark í 111 landsleikjum með Wales og dró liðið á herðum sér alla leið í undanúrslitin á EM 2016, þar sem Wales tapaði loks 2-0 gegn Portúgal.


Athugasemdir
banner
banner
banner