Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 31. maí 2023 17:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mál sem hefur ratað í hvern starfshópinn á fætur öðrum
Á að heimila varalið í meistaraflokki kvenna á Íslandi?
Pétur Pétursson, þjálfari Vals, fer yfir málin með leikmönnum sínum.
Pétur Pétursson, þjálfari Vals, fer yfir málin með leikmönnum sínum.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Úr leik hjá Breiðabliki og Fram á dögunum.
Úr leik hjá Breiðabliki og Fram á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá ársþingi KSÍ.
Frá ársþingi KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Augnablik, venslafélag Breiðabliks, fagnar marki.
Augnablik, venslafélag Breiðabliks, fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Úr leik Þróttar og Vals á dögunum.
Úr leik Þróttar og Vals á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Úr leik hjá KH, venslafélagi Vals, í fyrra.
Úr leik hjá KH, venslafélagi Vals, í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH studdi síðustu tillögu sem var lögð fram, ásamt Breiðabliki og Val. Þessi mynd er úr leik Vals og FH fyrr á þessu tímabili.
FH studdi síðustu tillögu sem var lögð fram, ásamt Breiðabliki og Val. Þessi mynd er úr leik Vals og FH fyrr á þessu tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ. Hvað gerist á næsta ársþingi KSÍ?
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ. Hvað gerist á næsta ársþingi KSÍ?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur Pétursson, þjálfari kvennaliðs Vals, lét óánægju sína með reglur KSÍ í ljós eftir tap gegn Þrótti í Mjólkurbikarnum síðastliðið laugardagskvöld.

Valur var aðeins með þrjá útileikmenn á bekknum í þeim leik út af meiðslum og veikindum. „Ég er bara með meiðsli og veikindi í hópnum, ég hafði ekki fleiri leikmenn," sagði Pétur en hann gat ekki tekið leikmenn úr 2. og 3. flokki inn í hópinn þar sem þeir leikmenn eru að spila með KH, venslafélagi Vals, í meistaraflokki til að þróa sinn leik.

KH leikur í 2. deild kvenna en Valur má ekki kalla leikmenn til baka úr KH utan glugga; reglurnar leyfa það ekki og því ekki mikið flæði þarna á milli.

„Eini möguleikinn hjá mér er að fara niður í 4. flokk. Það eru reglur hjá KSÍ um að ég megi ekki nota leikmenn sem eru að spila hjá KH. Mér finnst þetta alveg út í hött og ég er búinn að segja það í mörg ár. Ég þarf að fara niður í 4. flokk þá til að fylla bekkinn og það eru stelpur sem eru 11 og 12 ára."

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, tók undir þessi ummæli hjá Pétri í viðtali við Fótbolta.net í gær. Breiðabliki er með venslafélag, Augnablik, sem er í Lengjudeildinni þar sem margir af yngri leikmönnum félagsins fá að spreyta sig í meistaraflokki. En það er ekki hægt að kalla þá upp ef tækifæri opnast á hærra stigi í Breiðabliki, utan glugga.

„Breiðablik hefur reynt að tala fyrir tillögu á undanförnum árum á KSÍ-þingum og önnur félög hafa bara ekki viljað koma með í það. Að mínu mati er það að hamla framgangi ungra leikmanna, alveg klárlega," sagði Ási en þetta er mál sem hefur lengi verið til umræðu.

Tillaga lögð fyrir 2019...
Á ársþingi KSÍ árið 2019 sendi Breiðablik inn tillögu til að breyta reglum er varðar varalið í meistaraflokki kvenna.

Tillagan var með eftirfarandi hætti: „Lagt er til að félögum verði heimilt að skrá til leiks varalið í meistaraflokki kvenna sem hefur þátttökurétt í deildakeppni Íslandsmóts. Hlutgengi með varaliði hafa allir leikmenn sem eru skráðir í félagið nema þeir 11 leikmenn sem hafa leikið flesta leiki með aðalliði á sama leiktímabili og þeir leikmenn sem byrjuðu síðasta leik aðalliðs á undan. Varalið getur ekki unnið sér sæti í efstu deild. Varalið getur fallið um deild."

„Markmiðið með þessari lagabreytingu er að gefa fleiri ungum leikmönnum færi á að keppa við krefjandi aðstæður og undirbúa þá þannig betur undir feril í meistaraflokki. Leikmenn sem eru ungir að aldri þurfa ekki að yfirgefa uppeldisfélag sitt á meðan þeir eru enn á 2. flokks eða 3. flokks aldri og vonandi minnka líkur á brottfalli. Leikmenn sem eru ekki í leikmannahópi aðalliðs geta spilað leiki, sem þeir fá ekki með núverandi fyrirkomulagi. Fyrirkomulagið býr til fleiri möguleika til keppni fyrir leikmenn á 2. flokks aldri og varamenn í meistaraflokki."

„Kostirnir við tillöguna eru tvímælalaust þeir að krefjandi verkefni fyrir leikmenn gefa af sér fleiri og betri leikmenn. Ungir leikmenn geta verið lengur hjá uppeldisfélagi sínu og félagið getur hlúið áfram að þeim í stað þess að þurfa að fara annað eða hætta. Leikmenn á meistaraflokksaldri sem komast ekki í byrjunarlið fá tækifæri til að spila sem þeir hafa ekki í dag. Minnkar þörfina á félagsskiptum ungra leikmanna í venslafélög sem takmarka möguleika þeirra á að komast í aðalliðið eða í önnur félög á keppnistímabilinu," sagði jafnframt með tillögunni en þar var komið inn á það að svipað fyrirkomulag væri í mörgum öðrum Evrópulöndum.

Jón Björn Skúlason fulltrúi Hauka á þinginu 2019, ávarpaði þá þingið og sagðist „óttast að varalið félaga í efstu deild myndi verða til þess að leikmenn frá félögum í neðri deildum freistuðust miklu frekar til að fara til stærri félaga og spila þar í varaliði heldur en að spila í aðalliði síns félags. Jón Björn sagði að þetta myndi skekkja stöðuna og jafnframt gera félögum erfitt með að fá leikmenn lánaða. Hann sagðist telja að hagsmunum leikmanna væri betur borgið með því að leika með aðalliði síns félags, heldur en með varaliði annarra félaga."

Í kjölfarið var málið sent í starfshóp sem átti að sjá um heildarskoðun á kvennaknattspyrnu og stefnumótun til framtíðar. Hægt er að lesa þinggerð í heild sinni með því að smella hérna.

Það sem Jón Björn sagði á þinginu eru mögulega stærstu rökin gegn því að leyfa meira flæði á milli varaliða og aðalliða, en Ási og Pétur eru báðir á því að reglurnar núna séu að hamla framgangi ungra leikmanna. Leikmenn geta farið í venslafélög og verið áfram innan félags síns, en þeir eru fastir í þeim liðum á milli glugga og geta ekki stigið upp í aðalliðið ef tækifæri gefst þegar gluggi er lokaður. Eins og gerðist hjá Val um liðna helgi.

Svo kom önnur tillaga í fyrra...
Þetta er klárlega umræða sem hægt er að taka og spurning hvort það sé hægt að gera einhverja málamiðlun um reglur hjá varaliðum, en það eru félögin sem ráða. Breiðablik, FH og Valur sendu aftur inn svipaða tillögu á ársþingið í fyrra. „Kostir tillögunnar eru tvímælalaust að fleiri krefjandi verkefni fyrir leikmenn gefa einfaldlega af sér fleiri og betri leikmenn," sagði þá í tillögunni.

Það skapaðist mikil umræða um tillöguna á ársþinginu í fyrra. Halldór Jón Garðarsson, fulltrúi frá Haukum sagðist áhyggjufullur að stærstu félögin gætu með þessu sankað að sér efnilegum leikmönnum úr öðrum félögum, og sagðist Katla Guðjónsdóttir, fulltrúi Víkings R., alfarið mótfallin þessari tillögu og að það væri hægt væri að útvega leikmönnum í 2. flokki meira krefjandi verkefni með svokölluðum venslaliðum - það væri ekki þörf á þessari breytingu.

FH fór fyrir tillögunni ásamt Breiðabliki og Val. Sagði Viðar Halldórsson frá FH á ársþinginu að sameiginleg lið væri sér íslenskt fyrirbæri. Hann sagði jafnframt að FH væri eitt þeirra félaga sem leggi þessa tillögu fram en falli þó tæplega undir stórlið í fótbolta kvenna. Þessi tillaga væri lögð fram með stelpurnar í huga til að fleiri fengju tækifæri á hæsta stigi.

Sigrún Óttarsdóttir frá Augnabliki sagði að það væri hægt að prófa þessa breytingu og það væri hægt að breyta til baka ef þessi breyting yrði ekki málið. En aftur náðist ekki sátt um þetta mál á þinginu í fyrra eftir miklar umræður og var það aftur sent í starfshóp sem skilaði svo af sér skýrslu fyrir ársþingið í ár.

Í skýrslu starfshópsins segir: „Ýmsir telja að með því að heimila varalið yrðu til tækifæri fyrir fleiri leikmenn á að spila krefjandi leiki, samkeppni ykist og þannig yrði framþróun leikmanna hraðari. Ungir leikmenn gætu fengið tækifæri með aðalliði síns félags en spilað heila leiki í deildarkeppni meistaraflokks með varaliðinu. Liðum í deildarkeppni fjölgar og þar með leikjum sem leiknir eru í meistaraflokki. Vandamál tengd hlutgengi leikmanna í Evrópukeppnum væru ekki lengur til staðar. Einnig má nefna að þá gætu eldri leikmenn, sem ekki stefna á feril með aðalliði félagsins, haldið áfram að leika undir merkjum síns félags, með varaliði."

„Á hinn bóginn hafa sumir haft áhyggjur af því að sú tilhneiging, að bestu leikmennirnir safnist í fáein lið, verði enn ríkari. Jafnframt að erfiðara verði fyrir félög að fá lánsmenn til sín úr félögunum í efri deildum, eins og tíðkast hefur, og þannig verði erfiðara að halda úti starfi í meistaraflokki í sumum félögum. Einnig hefur verið bent á að hugsanlega verði slík heimild til þess að fækka félögum sem tefla fram liði í 2.fl.kv/u20 og stuðli þannig að enn frekara brottfalli úr þeim aldurshópi, ekki megi gleyma hlutverki knattspyrnuhreyfingarinnar sem þátttakanda í forvarnar- og lýðheilsustarfi."

Fram kemur í skýrslunni að það séu fyrirmyndir í öðrum Evrópulöndum varðandi varalið en nýjasti starfshópurinn komst samt sem áður ekki að niðurstöðu. „Umræða um varalið í meistaraflokki kvenna hefur reglulega skotið upp kollinum í tengslum við ársþing KSÍ a.m.k. undanfarinn áratug. Skoðanir hafa verið mjög skiptar og þess vegna hefur málið ratað í hvern starfshópinn á fætur öðrum án niðurstöðu. Á því er ekki breyting núna. Snemma kom í ljós að ekki væri eining innan hópsins um það hvort heimila eigi varalið og þá hvaða leið sé best að fara," segir í þinggerð frá ársþinginu í ár og þar segir einnig:

„Í framhaldi af skýrslu starfshóps um varalið kvenna samþykkir ársþing KSÍ, á Ísafirði, að fela stjórn sambandsins að skipa starfshóp sem komi fram með hugmyndir og tillögur um mögulegt fyrirkomulag varaliða kvenna í deildakeppni meistaraflokka. Tillögum verði skilað í afgreiðsluhæfu formi á næsta þingi KSÍ."

Keppni í 2. flokki kvenna hefur ekki þótt nógu krefjandi síðustu ár en hlutgengisreglum þar hefur verið breytt. Meðal annars var einu ári bætt við aldursflokkinn og hlutgengi eldri leikmanna rýmkað með þeim hætti að nú mega fjórir eldri leikmenn taka þátt í leikjum u20 ára liðs og þeir mega hafa komið inn á í leik meistaraflokks á undan en mega ekki hafa byrjað leikinn. Þetta jók skráningu í 2. flokk en þó er enn óánægja með að varalið séu ekki leyfð.

„Mér finnst að við ættum - eins og víða er gert í Evrópu - að geta verið með venslalið í neðri deild þar sem eru ákveðnar reglur sem gilda. Að mínu mati þarf að breyta þessum reglum. Það þarf að taka þetta betur til skoðunar. Þetta er búið að vera í nefnd í eitt eða tvö ár. Það þarf að fara að gera eitthvað í þessu," sagði Ásmundur í gær en það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á næsta ársþingi. Það er allavega vonandi að þetta mál verði ekki sett í starfshóp enn eina ferðina, það fáist frekar niðurstaða í það.

Hægt er að lesa þinggerðina frá ársþinginu í ár með því að smella hérna.

Það eru annars fjórir leikir á dagskrá í Bestu deild kvenna í kvöld, leikir í sjöttu umferð.

miðvikudagur 31. maí
17:00 ÍBV-Tindastóll (Hásteinsvöllur)
19:15 Þróttur R.-Valur (AVIS völlurinn)
19:15 Selfoss-Breiðablik (JÁVERK-völlurinn)
19:15 Stjarnan-Keflavík (Samsungvöllurinn)

Umferðin klárast svo á morgun.

fimmtudagur 1. júní
18:30 Þór/KA-FH (Þórsvöllur)
Pétur ósáttur við reglur KSÍ: Eini möguleikinn að fara niður í 4. flokk
Ási sammála Pétri: Önnur félög hafa ekki viljað koma með í það
Athugasemdir
banner
banner