Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   þri 31. október 2023 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Andri Rúnar: Væri 'disaster' að fara upp og hugsa ekki stórt
Andri Rúnar fagnar sætinu í Bestu deildinni.
Andri Rúnar fagnar sætinu í Bestu deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það snýst meira um að læra koma sér í færi frekar en að skora úr hverju færi
Það snýst meira um að læra koma sér í færi frekar en að skora úr hverju færi
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Ég hef aldrei spilað á móti þeim, ekki einu sinni æfingaleik.
Ég hef aldrei spilað á móti þeim, ekki einu sinni æfingaleik.
Mynd: BÍ/Bolungarvík
„Það hefði verið óþolandi held ég, ég hef aldrei spilað á móti þeim, ekki einu sinni æfingaleik. Það hefði verið mjög sérstakt, hefði bara ekki gerst," sagði Andri Rúnar Bjarnason þegar hann var spurður út í hugsunina að spila á móti Vestra og það í efstu deild. Það er ekki að fara gerast, ekki á næsta tímabili allavega, því framherjinn var fenginn til Vestra eftir að ljóst varð að félagið verður með lið í efstu deild.

Andri lék með yngri flokkum í Bolungarvík og með meistaraflokki BÍ/Bolungarvíkur áður en hann hélt suður og fór í kjölfarið í atvinnumennsku. Hann sneri til Íslands aftur fyrir tímabilið 2022, lék þá með ÍBV og á síðasta tímabili lék hann með Val.

Andri var til viðtals í útvarpsþættinum Fótbolti.net. á dögunum. Hann ræddi um heimkomu sína í Vestra. Leggja á gervigras bæði á æfingavöll og keppnisvöll Vestra og eiga þeir vellir vera komnir í notkun í vetur.

„Það hefur verið stígandi í þessu hjá félaginu. Það er verið að breyta aðstöðunni og næsta sumar ættum við að geta mætt klárir til leiks í fyrsta leik, búnir að spila og æfa einhvers staðar sem er ekki reiðhöll. Það væri góð byrjun. Þetta verður allt öðruvísi vetur og skemmtilegt sumar."

Andri er einn af meðlimum 19 marka klúbbsins, mættur heim og það verða gerðar alvöru væntingar til hans.

„Ég átta mig á því að ef hlutirnir ganga ekki vel þá verður ljósinu sennilega varpað fyrst á mig. Maður þarf að vera með helvíti breitt bak í það. Ég hef einhvern veginn það mikla trú á því að við verðum með lið sem gerir eitthvað. Ég held að það að fara upp um deild og ekki hugsa stórt sé 'disaster' og mér finnst það á Samma (formanni) og Davíð (þjálfara) að það eigi ekki að hanga uppi í deildinni í síðustu umferð. Það á að fara og gera eitthvað. Til þess þarf að æfa eins og menn í vetur og það þýðir ekkert að segja þetta núna, mæta til leiks og hafa gaman í efstu deild og skítfalla svo. Það er ekki í boði."

Andri er með mikið markanef. „Því nær markinu sem þú ert því meira skoraru. Það þarf að vera traust. Þegar þú veist að þú ert að fara spila næstu 4-5 leiki, þá þarftu ekki að vera hugsa um að þurfa gera hlutina, heldur gerast þeir náttúrulega. Þú vilt vera með framherja sem eru alltaf að koma sér í færi. Það geta dottið inn 2-3 leikir þar sem mörkin koma ekki. Það snýst meira um að læra koma sér í færi frekar en að skora úr hverju færi. Þegar þú ert með traust, þó að það komi smá kafli þar sem þú skorar ekki, þá mun það detta með þér."

Andri varð markakóngur í sænsku B-deildinni þegar hann lék með Helsingborg. Hann skoraði ekki í fimm leikjum í röð, fékk mikið traust frá þjálfaranum og skoraði í sjö leikjum í röð eftir það. „Þú þarft bara að koma þér í færin, svo byrjar þetta að tikka."
Útvarpsþátturinn - Hræringar, Heimaleikurinn og Valgeir Lunddal
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner