Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Inkasso-deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. Leiknir R. 120 stig
8. Haukar 108 stig
9. Grótta 104 stig
10. Njarðvík 78 stig
11. Afturelding 65 stig
12. Magni 27 stig
7. Leiknir R.
Lokastaða í fyrra: Eftir þjálfarabreytingar í byrjun síðasta tímabils og mikið bras lengi vel endaði Leiknir í 7. sæti deildarinnar í fyrra með 25 stig. Vigfús Arnar Jósepsson fyrrum leikmaður Leiknis þjálfaði liðið eftir að Kristófer Sigurgeirsson var rekinn eftir að hafa tapað fyrstu þremur leikjum sumarsins.
Þjálfarinn: Stefán Gíslason tók við Leiknisliðinu í vetur. Stefán þjálfaði síðast Hauka með ágætis árangri í Inkasso-deildinni sumarið 2017. Áður hafði Stefán þjálfað yngri flokka hjá Breiðabliki. Stefán er fyrrum landsliðs- og atvinnumaður.
Styrkleikar: Leiknisliðið ætti að geta boðið upp á skemmtilegan sóknarleik í sumar en sóknarmennirnir Sólon Breki Leifsson og Sævar Atli Magnússon ná gríðarlega vel saman og kunna listina að skora mörk. Ingólfur Sigurðsson er kominn til liðsins og ef hann verður í gírnum ætti sköpunarmáttur hans og spyrnutækni að vera hættulegt vopn. Þá er liðið með einn besta markvörð deildarinnar í Eyjólfi Tómassyni.
Veikleikar: Liðið fékk á sig fjögur mörk í bikarleiknum gegn Fjölni á dögunum. Varnarleikurinn er spurningamerki og liðið má ekki við skakkaföllum í varnarlínunni. Leiknismenn byrjuðu síðasta tímabil illa og heimavöllurinn, Ghetto ground, var ekki að gefa nægilega mikið. Aðeins botnlið ÍR vann færri heimaleiki í Inkasso-deildinni í fyrra. Eitthvað sem Leiknismenn verða að snúa við.
Lykilmenn: Eyjólfur Tómasson, Nacho Heras og Sólon Breki Leifsson.
Gaman að fylgjast með: Vuk Oskar Dimitrijevic. Þessi 18 ára Leiknismaður spilaði 17 leiki í Inkasso-deildinni í fyrra og vakti athygli. Hefur leikið fyrir yngri landslið Íslands og spennandi verður að sjá hvort þessi skemmtilegi leikmaður taki næsta skref og láti enn meira að sér kveða í sumar.
Komnir:
Gyrðir Hrafn Guðbrandsson frá KR
Ingólfur Sigurðsson frá KH
Nacho Heras frá Víkingi Ó.
Natan Hjaltalín frá Fylkir
Stefán Árni Geirsson frá KR
Hjalti Sigurðsson frá KR
Viktor Marel Kjærnested frá Aftureldingu
Farnir:
Miroslav Zhivkov Pushkarov til Búlgaríu
Ryota Nakamura
Tómas Óli Garðarsson
Trausti Sigurbjörnsson í Aftureldingu
Fyrstu þrír leikir Leiknis
4. maí Leiknir R. - Magni
10. maí Afturelding – Leiknir R.
17. maí Leiknir R. – Njarðvík
Athugasemdir