Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 23. júní 2010 23:24
Fótbolti.net
Umfjöllun: Stjarnan þurfti að hafa fyrir sigrinum á Ísafirði
Stefán Pálsson skrifar frá Ísafirði
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld.
Mynd: Ívar Atli Sigurjónsson
Mynd: Ragnar Högni
Mynd: Ragnar Högni
BÍ/Bolungarvík 0-2 Stjarnan
0-1 Ólafur Karl Finsen ('12)
0-2 Halldór Orri Björnsson ('50)

Fjölmennt var í firðinum fagra á Torfnesvelli, Ísafirði þegar leikur BÍ/Bolungarvíkur og Stjörnunar hófst við fínar aðstæður. Stemningin var mikil vegna komu Garðbæinga og mikið var um trommur og lúðra í stúkunni.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og ekkert markvert gerðist fyrr en á 10. mínútu leiksins þegar Stjörnumenn fengu aukaspyrnu fyrir utan teig en Róbert Örn gerði vel í markinu.

Í kjölfarið fengu Stjörnumenn hornspyrnu, mikið klafs var í teignum eftir boltanum og endaði boltinn svo við fæturnar á Ólafi Karli Finsen sem setti hann í netið. Vörn BÍ/Bolungarvíkur vildi fá rangstöðu og Róbert Örn markmaður var á sama máli.

BÍ/Bolungarvík tók miðju, Gunnar Már Elíasson átti góða sendingu inn fyrir vörn Garðbæinga á Andra Rúnar Bjarnason sem endaði með lausu skoti sem Bjarni Halldórsson markvörður Stjörnunar áti ekki í erfiðleikum með. Stuttu seinna fékk Stjarnan dæmda á sig aukaspyrnu sem endaði með lausu skoti á markið.

Þegar rúmar 20 mínútur voru liðnar höfðu Stjörnumenn verið mun hættulegri, en BÍ/Bolungarvíkur fóru nú að sækja í sig veðrið. Marel Baldvinsson fékk góða stungu innfyrir vörn BÍ/Bolungarvíkur en Sigurgeir Gíslason gerði mjög vel í vörninni og stöðvaði þetta færi.

Á 35. mínútu fékk BÍ/Bolungarvík innkast ofarlega á vellinum, langt innkast og síðan stunga inn á Arnar Þór Samúelsson sem setti boltann hátt yfir markið. Klárlega hættulegasta færi BÍ/Bolungarvíkur í fyrri hálfleik. Seinustu 5 mínútur fyrri hálfleiks voru Stjörnumenn mun hættulegri en vörn BÍ/Bolungarvíkur var föst fyrir.

Strax á 50. mínútu braut Sigurgeir Gíslason á Stjörnumanni inni í teig og uppskar gult spjald og Garðbæingar fengu víti. Halldór Orri Björnsson skoraði framhjá Róberti sem náði ekki til knattarins. Strax eftir miðjuna spilaði BÍ/Bolungarvík hratt upp, Andri Bjarnason prjónaði sig í gegnum miðju Stjörnunnar og átti gott þríhyrningaspil við Gunnar Már Elíasson sem endaði með að Andri vippaði yfir markið.

BÍ/Bolungarvík átti næstu 3 sóknir og voru allir að koma til í leiknum. Á 62. mínútu fengu BÍ/Bolungarvík sitt besta færi í leiknum. Andri komst í gegnum vörnina og átti gott skot sem Bjarni Þórður varði út í teiginn og Milan Krivokapic setti hann rétt framhjá. Góð sókn hjá BÍ/Bolungarvík sem allir voru að hressast. Strax eftir útspark náði Andri Bjarnason til boltans og komst í gegnum leikmenn Stjörnunnar en fullmikið klapp á boltanum orsakaði það hann missti hann frá sér.

Eftir um 75. mínútna leik fékk BÍ/Bolungarvík aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Endaði hún með lausu skoti. BÍ/Bolungarvík átti lítil svör við vörn Garðbæinga í föstum leikatriðum í leiknum.

Undir lok leiksins fékk Stjarnan skyndisókn en Róbert Örn gerði mjög vel í markinu. BÍ/Bolungarvík sótti hratt til baka góð stunga út á hægri kant á Hafþór Atla Agnarsson sem rétt missti af boltanum.

Strax eftir útsparkið flautaði Gunnar Jarl Jónsson, dómari leiksins leikinn af en lítið var hægt að setja út á hans dómgæslu í leiknum.

Stjörnumenn þurftu að hafa nokkuð fyrir sigrinum í kvöld gegn frísku liði BÍ/Bolungarvíkur.
banner
banner