Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
   mið 09. febrúar 2011 07:00
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Fótbolti og hlaupabrautir eiga ekki saman
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Framkvæmdir við Ólympíuleikvanginn í London eru í fullum gangi.
Framkvæmdir við Ólympíuleikvanginn í London eru í fullum gangi.
Mynd: Getty Images
Hlaupabrautin óþolandi í Laugardal.
Hlaupabrautin óþolandi í Laugardal.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Á heimavelli Fulham er varla pláss fyrir leikmenn til að hita upp.
Á heimavelli Fulham er varla pláss fyrir leikmenn til að hita upp.
Mynd: Getty Images
Á Englandi er beðið með mikilli eftirvæntingu eftir Ólympíuleikunum sem haldnir verða í London. Enn er ekki búið að ákveða hvað gert verður við nýja Ólympíuleikvanginn eftir að leikunum lýkur en ensku úrvalsdeildarfélögin Tottenham og West Ham hafa bæði gert tilkall til hans enda leikvangar þeirra komnir til ára sinna.

Forráðamenn félagana hafa komið með framtíðarhugmyndir sínar varðandi leikvanginn. West Ham hyggst halda hlaupabrautinni kringum völlinn ef félagið fær hann í sínar hendur en Tottenham ætlar að láta fjarlægja bautina. Aftur á móti eru hugmyndir Tottenham að byggð verði aðstaða fyrir frjálsíþróttamót á öðrum leikvangi í borginni sem mun taka 25 þúsund manns í sæti.

Fótbolti og hlaupabrautir eiga enga samleið og einstaklega óheillandi að sjá fótboltaleik í beinni útsendingu þar sem ekki sést í áhorfendastúkuna þar sem hún er staðsett svo langt frá sjálfum vellinum. Það er bara staðreynd að aldrei er hægt að skapa sömu stemningu á völlum þar sem hlaupabraut gerir það að verkum að nálægð áhorfenda og leikmanna er ekki mikil.

Meðal þess sem gerir enska boltann eins sjarmerandi og raun ber vitni er hve stúkurnar eru nálægt vellinum á hinum hefðbundna enska leikvangi. Stundum er nálægðin meiraðsegja svo mikil að varamenn fá varla pláss til að hita upp. Í löndum eins og Þýskalandi hefur verið horft til þessarar menningar í æ ríkari mæli og hlaupabrautirnar sem einkenndu marga velli þar eru sem betur nær allar horfnar.

Ég hélt að hlaupabrautir kringum helstu fótboltavelli nútímans væru smátt og smátt að heyra sögunni til og vona að forráðamenn West Ham endurskoði þessar hugmyndir sínar ef þeir fá Ólympíuleikvanginn í hendurnar.

Við þurfum ekki að horfa langt til að sjá hvað hlaupabrautir kringum fótboltavelli eru óþolandi. Þrátt fyrir að ég sé langt frá því að vera sá fyrsti sem skrifi um að hlaupabrautin kringum Laugardalsvöllinn þurfi að fara þá eru því miður engin teikn á lofti um að það muni gerast í nánustu framtíð. Félagar mínir á Sammaranum.com hafa verið duglegir að halda uppi umræðum varðandi þennan þjóðarleikvang okkar Íslendinga og eiga hrós skilið fyrir það.

Laugardalsvöllurinn mun aldrei geta talist gryfja meðan hlaupabrautin er til staðar. Margar minni knattspyrnuþjóðir eru með velli sem geta talist sem eitt af vopnum landsliðs þeirra en svo á alls ekki við um okkar umdeilda þjóðarleikvang. Að ná að skapa stemningu í stúkunni á Laugardalsvelli ætti í raun að teljast afrek.

Ég vona að ég þurfi ekki að taka fram að þessi pistill er eingöngu skrifaður út frá fótboltalegu sjónarmiði. Auðvitað vill ég að aðstaða frjálsíþróttafólks hér á landi sé sem best en það er algjör óþarfi að hún sá á sama leikvangi og landsleikir í fótbolta fara fram. Best væri, bæði fyrir fótboltafólk og frjálsíþróttafólk, að færa hana á minni leikvang. Daginn sem fullur Laugardalsvöllur horfir á frjálsíþróttamót skal ég éta þessi orð ofan í mig.

Áfram fótbolti án hlaupabrauta!
banner