Björn Már Ólafsson skrifar
Leikkerfi í fótbolta breytast líkt og tíska. Í gamla daga voru kerfin einfaldari og klunnalegri en í dag eru þau orðin flókin og vönduð. Inn á milli koma fram nýjungar eins og t.d. svæðisvörnin á 9. áratugnum sem leiddi til mikilla áherslubreytinga hjá liðum í Evrópu.
Síðastliðin ár hefur þróunin í leikkerfum verið mikil í miðju- og sókn en svo virðist sem allir séu sammála um að fjögurra manna vörn sé heppilegust. 4-4-2 sem var svo vinsælt á 10. áratugnum hefur á undanförnum árum þróast yfir í 4-2-3-1 og nú nýlega yfir í 4-3-3.
Vel má vera að fjögurra manna varnarlína henti flestum liðum. Hún er tiltölulega auðveld og flestir krakkar sem æfa knattspyrnu læra einungis þessa aðferð. Sjálfur hef ég aldrei haft þjálfara sem hefur gert miklar tilraunir með þriggja manna varnarlínu. Skiljanlega svo sem, þar sem starf knattspyrnustjóra er oft á tíðum óöruggt starf sem bundið er við að árangur náist, en við slíkar aðstæður missa krakkar oft af þeim fjölbreytileika sem knattspyrnan á að bjóða upp á. Þjálfarinn á að byggja upp lið úr þeim leikmönnum sem hann hefur, ekki að stilla leikmönnum upp í fyrirframákveðið kerfi.
Er fjögurra manna varnarlína hentugasta uppstillingin fyrir öll félögin í Ensku úrvalsdeildinni? Einhvern veginn efa ég það (Því skal þó haldið til haga að nokkur lið hafa leikið með þriggja manna vörn í ár þ.á.m. Liverpool með ágætum árangri).
Þó eru til félög sem hafa það í erfðaefni sínu að notast við 3-5-2 kerfið. Napoli og Udinese eru dæmi þar um. Francesco Guidolin var gerður að þjálfara Udinese 1998. Þegar hann tók við félaginu sagði hann leikmönnunum að hann hygðist nota 4-4-2. En þegar hann stillti liði sínu upp á æfingasvæðinu kom í ljós að þeir voru eins og hauslaus her. Udinese hafði notast við 3-5-2 svo lengi að leikmennirnir þekktu vart annað. Að undanskildum árunum 2001-2005 undir stjórn frumkvöðuls 4-2-3-1 kerfisins Luciano Spalletti hefur Udinese notast við þriggja manna varnarlínu í áraraðir. Þeir leika mjög sókndjarfan fótbolta og leiðir það til þess að inn á milli fær félagið stóra skelli. Þá heyrast alltaf raddir efasemdamanna: Þessi leikaðferð er dauð!
En hvað ef Udinese hefði alltaf leikið 4-4-2? Hefðu þeir þá hafa náð sama árangri og þeir hafa náð undanfarin ár?
Napoli er annað félag sem notast ekki við annað en 3-5-2. Líklegast er þetta arfur frá þeim tíma er Diego nokkur Maradona lék með félaginu, en á þeim tíma var 3-5-2 mjög algeng taktík. Maradona er ennþá svo stór í Napoli að þeir hafa ekki þorað að breyta neinu eftir að hann yfirgaf félagið. Nú vill svo til að Napoli er í öðru sæti í ítölsku deildinni, aðeins á eftir AC Milan. Þetta hefur stungið ofan í þá gagnrýnendur sem halda því fram að ekki sé hægt að ná árangri í nútíma knattspyrnu með þessu leikkerfi. Eins og hefur sýnt sig í vetur þá er þessi leikaðferð mjög hentug þegar Napoli leikur gegn lakari liðum og fær að hafa boltann í friði. Áhættan á að fá á sig skyndisókn er lítil þar sem ávalt eru þrír varnarmenn eftir í vörninni sem færa sig lítið fram völlinn.
Síðan eru vængmennirnir tveir gríðarlega vinnusamir og kunna hlutverk sitt fullkomlega. Andrea Dossena sem leikur á vinstri vængnum sló einmitt í gegn á vinstri vængnum hjá Udinese á sínum tíma í sama leikkerfi. Á hægri vængnum er hinn eldsnöggi Christian Maggio sem hefur undanfarin ár barið á dyr Ítalska landsliðsins. Miðjumennirnir eru fjölbreyttir, allir með sitt hlutverk á hreinu. Gargano er leikstjórnandinn, Pazienza sinnir grófvinnunni og Hamsik tekur hlaupin innfyrir vörn andstæðinganna. Cavani og Lavezzi sjá síðan um að skora mörkin.
En eins og leikaðferðin er heppileg þegar leikið er gegn lakari liðum þá er hún viðkvæm þegar leikið er við sterkari lið eins og Milan og Inter. Hvort á vængmaður Napoli að detta niður í vörnina eða bíða ofar á vellinum? Hvað ef andstæðingarnir leika aðeins með einn framherja, er þá ekki einum miðverði ofaukið? Napoli hefur einmitt ekki tekist að vinna Inter og AC Milan í deildinni í ár og er það ein helsta ástæðan fyrir að félagið mun sennilega ekki vinna titilinn í ár.
Lið Chile (Síle) á Heimsmeistaramótinu í Suður Afríku var eitt skemmtilegasta liðið sem ég sá í keppninni. Þjálfari liðsins Bielsa notaðist við hina nýstárlegu 3-3-1-3 leikaðferð, aðferð sem sjaldan hefur sést áður. Þegar nánar er að gáð sést að þjálfarinn hafði góð rök til að notast við slíkt leikkerfi. Tveir af betri leikmönnum liðsins, Alexis Sanchez og Mouricio Isla leika með Udinese. Isla er að mínu mati einn af betri sóknarbakvörðunum á Ítalíu og fyrir framan hann leikur Sanchez sem mörg stórlið Evrópu eltast við. Árangur Bielsa með Chile er áhugaverður en í undankeppninni fyrir HM 2010 lenti liðið í öðru sæti S-Ameríku riðilsins en fyrir HM 2002 var liðið í næst neðsta sæti riðilsins. Bielsa náði að vísu ekki góðum árangri með Stjörnuliði Argentínu á HM 2002 en eftir það hefur hann verið einn framúrstefnulegi þjálfari heims og hver veit nema að við fáum að sjá 3-3-1-3 í Ensku deildinni eftir nokkur ár.
En svona dæmi sýna að það þarf ekki alltaf að fara eftir uppskriftinni. Allt sem þarf er djarfan þjálfara sem lítur á kosti og galla leikmanna sinna og stillir upp liðinu eftir því.
Smelltu hér til að taka þátt í umræða um greinina á Sammarinn.com