
Theodór Sveinjónsson þjálfari Þróttar var að vonum svekktur eftir 4-2 tapið gegn Stjörnunni í kvöld. Hann hrósaði sínum leikmönnum þó fyrir fína frammistöðu og gott hugarfar.
„Ég er náttúrulega ósáttur við að tapa. Við ætluðum að fá stig hérna, verja það sem við áttum í byrjun leiks. Við komumst yfir strax á fyrstu mínútu en.. Já, ég er svo þreyttur á að segja að fótboltinn er grimmur. Þær eru auðvitað með rosalega gott lið og sóttu mikið á okkur en við vörðumst líka vel.”
„Ég sagði við þær að njóta þess að spila, að þær væru góðar í fótbolta og væru búnar að vinna sér þennan rétt að vera hérna og spila á svona velli með þessari umgjörð. Það eru auðvitað forréttindi og ég sagði þeim bara að fara út og njóta þess og vera ekkert smeykar við eitt né neitt,” sagði Theodór meðal annars í spjalli við Fótbolta.net eftir leik en hægt er að horfa á allt viðtalið í sjónvarpinu hér að ofan.