,,Ási ákvað að flytja sig um set sem ég skil vel og fara í Árbæinn. Þá lá beinast við að ég tæki við og ég er reiðbúinn í það," sagði Ágúst Þór Gylfason við Fótbolta.net í dag en hann var í gær ráðinn þjálfari Fjölnis.
Ágúst hefur undanfarin ár verið aðstoðarþjálfari Fjölnismanna en eftir að Ásmundur Arnarsson fór frá félaginu til að taka við Fylki í gær var Ágúst ráðinn þjálfari Fjölnis.
,,Ég tek við góðu búi frá Ása. Þetta eru flottir og efnilegir strákar sem eru einu ári eldri en í fyrra. Nú þarf bara að leita að góðum gömlum styrkingum og fá einhverja tvo til þrjá 35+ kalla og þá stefnum við upp og ekkert annað."
Ágúst vonast til að fá reynslumikla leikmenn til Fjölnis en hann telur að það sé það sem upp á vantar hjá liðinu.
,,Ég er með góðan lista og menn mega vera tilbúnir við símann. Okkur vantar reynslumenn, við erum með ungviðið. Ég held að ég sé orðinn of gamall til að taka skóna fram að nýju en það er aldrei að vita hvað við finnum út úr þessu."
,,Það hefur verið erfitt að fá menn og ég kalla eftir þessum mönnum sem eru tilbúnir að koma niður. Það vantar mjög lítið upp á í okkar lið til að við séum með mannskap til að fara upp. Ég er með ákveðin nöfn á lista og það gætu verið fleiri sem bíða. Ég væri helst til í að fá gamla Íslandsmeistara eða landsliðsmenn, það væri langbest fyrir okkur. "
Fjölnismenn enduðu í fjórða sæti í fyrstu deildinni í fyrra og í fimmta sæti í ár. Markmiðið næsta sumar er síðan einfalt.
,,Ég og Ási erum búnir að vinna að því síðustu ár að næsta ár sé árið sem við ætlum upp og ég er ekki að taka við liðinu til að taka þrjú ár í að byggja upp lið. Við ætlum að gera atlögu að þessu á næsta ári," sagði Ágúst Þór.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.