,,Þetta er spennandi klúbbur og það eru spennandi hlutir í gangi þarna," sagði Stefán Jóhann Eggertsson við Fótbolta.net í dag en hann samdi við Leiknismenn í gærkvöldi.
,,Ég er nokkuð viss um að Leiknir verði í toppbaráttunni. Mér finnst þetta vera sterkt lið með toppþjálfara."
Stefán Jóhann lék með uppeldisfélagi sínu HK síðari hluta sumars og féll með liðinu. HK-ingar hjálpuðu Leiknismönnum að bjarga sér frá falli með því að leggja Gróttu í lokaumferðinni en ef það hefði ekki gerst þá hefði hann farið í annað félag.
,,Já, ég hugsa það. Maður ætlaði sér að spila í efstu tveimur deildunum," sagði Stefán Jóhann.
Eftir sigur HK á Gróttu fengu leikmenn Kópavogsliðsins tíu bjórkassa í gjöf frá þakklátum Leiknismönnum.
,,Bjórinn var ljúfur en ég er ekki að borga hann til baka. Þetta var flott hjá þeim, það var gott að fá svona eftir síðasta leik. Það nýttist okkur vel," sagði Stefán léttur í bragði.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.