„Á milli línanna í blöðum og vefmiðlum landsins er hvítur og hreinn flötur með engu. Þetta veit ég því ég hef skoðað það!´´
Eftir viðtal við Gylfa Þór Orrason, formann dómaranefndar KSÍ, í Fréttablaðinu í síðustu viku heyrist mér, til mikillar lukku, að fólk sé ekki að trúa þeim málflutningi sem þar er settur fram. Sem betur fer segi ég því að tilgangur blaðaskrifa Gylfa Þórs Orrasonar formanns dómaranefndar KSÍ á liðnum mánuðum virðist, af einhverjum ástæðum, markast af því að láta mig líta illa út sem persónu.
Það eru þó einhverjir sem spyrja: „Já en Jói það hlýtur eitthvað alvarlegt að hafa gerst? Svona gerist bara ekki öðruvísi !“ Ykkur sem þetta lesið segi ég bara: Ég bið ykkur um að trúa mér þegar ég segi að það hefur ekkert slíkt gerst sem réttlætir þessa meðhöndlun sem ég hef orðið fyrir!
Ég er auðvitað ekki allra og hef skoðanir á hlutunum sem þurfa ekki að falla öllu í geð. Ég get verið gagnrýninn og hvatvís og stundum þarf að minna mig á það ef þannig ber undir. Það er því algjört grundvallaratriði og hefur verið krafa mín að Gylfi segi mér hvað ég eigi að hafa gert af mér. Að tala um samstarfsörðugleika út í loftið og án þess að nefna einhver grafalvarleg brot sem ég á að hafa framið, er bara ekki í lagi.
Orð Gylfa Þórs virðast snúast um að sverta mannorð mitt og gera lítið úr mér sem persónu og starfsmanni KSÍ til 18 ára. Gylfi hefur alls staðar neitað að svara spurningum mínum, já og allra þeirra sem hafa áhuga á málinu, um hvers vegna mér var bolað frá borði hjá KSÍ í febrúar síðast liðnum. Gylfi hefur snúið út úr öllum fyrirspurnum með frösum eins og „málið verður ekki frekar rætt“, „ég ætla ekki að fara í deilur við hann í fjölmiðlum“, „lesið sjálf á milli línanna“ og fleira.
Á milli línanna í blöðum og vefmiðlum landsins er hvítur og hreinn flötur með engu. Þetta veit ég því ég hef skoðað það!
KSÍ sendir frá sér yfirlýsingu um uppsögn mína
Upphafið að þessu öllu er viðtal við Gylfa á netmiðlinum Fótbolti.net í febrúar sl. þar sem eftir því var tekið að á vef KSÍ var nafn mitt ekki lengur á lista yfir dómara á Íslandi. Nafn mitt var horfið út af dómaralistanum hjá KSÍ og það án þess að nokkur talaði við mig einu orði. Vissi ekkert af þessu og frétti þetta fyrst, eins og aðrir, í þessu viðtali á netinu.
Á þessum tímapunkti var ég fúll og svekktur yfir því að mér virtist hafa verið bolað út úr Evrópudeildarteymi Kristins Jakobssonar án nokkurra skýringa, enda vissi ég ekki betur en ég hefði staðið mig með prýði og verið landi og þjóð til sóma. Ég hafði gert athugasemdir við þá aðila sem sjá um þau mál og beðið um skýringar. Þarna virðist „stóri“ hundurinn, sem má ekki ræða um, liggja grafinn. En meira um það síðar.
Meintar uppsagnir
Þegar Gylfi var krafinn svara, um af hverju nafn mitt var ekki lengur á listanum, varð honum tíðrætt um að ég hefði sagt upp störfum hjá KSÍ með formlegum hætti (febrúar). Þessu var samstundis vísað til föðurhúsanna og þess krafist að hann myndi birta þá uppsögn. Þegar þetta hélt ekki vatni lengur, breyttist sagan í að ég átti að hafa sagt upp í hnútukasti í körfuboltatíma hjá okkur félögunum í Laugargötu á Akureyri fyrir framan Guðmund Heiðar Jónsson dómaranefndarmann (mars). Rétti honum eflaust skriflega uppsögn þarna í íþróttasalnum? Þvílík fásinna að krydda þetta upp sem einhverja uppsögn.
Þegar þetta gekk ekki á ég að hafa sagt upp störfum í símtali við Birki Sveinsson mótastjóra KSÍ og samstarfsfélaga minn hjá KSÍ (mars). Þetta símtal átti sér vissulega stað. Birkir hringdi í mig vegna þess að hann var að raða dómurum á leiki í Lengjubikar. Við áttum langt símtal og ég ræddi m.a. við hann um að ég væri að upplifa að ákveðnir menn væru að reyna að bola mér út úr dómgæslu. Sagði honum að ef það væri raunin að ég væri kominn í stríð við þá sem raða dómurum á leiki væri eflaust best að hætta þessu bara. Hann spurði mig þá hvort ég væri þá hættur og myndi þá skila inn skriflegri uppsögn.
Ég sagði honum að ég væri ekki hættur, en hann skyldi ekki vera að raða mér á leiki fyrr en menn vildu ræða þessi mál við mig og ég myndi ekki senda inn formlega uppsögn. Ég sagði honum að ég myndi þó gera það ef ég tæki ákvörðun um að hætta, enda eðlilegt að segja upp við sinn yfirmann með formlegum hætti. Hvers vegna Birkir sér einhvern eðlilegan flöt á því að matreiða þetta samtal sem uppsögn af minni hálfu og dómaranefnd skuli samþykkja þann gjörning án þess að tala við mig er mér auðvitað hulin ráðgáta ! Við þessum spurningum fást engin svör, frekar en venjulega.
Ég hef í viðtali við blaðamann búið til eftirfarandi dæmi til samanburðar við þessa vitleysu: Eiríkur Stefán, blaðamaður Fréttablaðsins, er fúll og svekktur yfir því að það voru tekin af honum verkefni sem honum hafði verið falið að vinna. Hann vissi ekki betur en að hann væri að vinna frábært starf. Hann situr með Arnari Björnssyni hjá Stöð 2 Sport, og vinnufélaga sínum hjá 365, á kaffistofunni í vinnunni.
Hann segir við Arnar: „Veistu Arnar að þetta er bara svo ósanngjarnt og óskiljanlegt. Enginn vill ræða þetta við mig og ég er bara að upplifa að það sé verið að bola mér út. Kannski er bara best að hætta þessu.“ Arnar Björns býður ekki boðanna og arkar á fund Ara Edwald forstjóra 365 og segir honum að Eiríkur hafi verið að segja sér að hann væri hættur. Ari lítur þetta mjög alvarlegum augum og ákveður að tilkynna á vefnum hjá Fótbolti.net, án þess að ræða við Eirík, að Eiríkur hafi sagt upp með formlegum hætti og hann hafi neyðst til að samþykkja uppsögnina.
Eiríkur fær engin verkefni hjá 365 eftir þetta og er bara úthýst án umræðu ! Ari svarar öllum að þetta verði ekki rætt frekar! Engin uppsögn frá Eiríki hefur borist fyrirtækinu og 365 segja Eiríki heldur aldrei upp störfum né ræða við hann. Það sjá allir hvað þetta væri fjarstæðukennt og ljótt!
Þá var komið að samstarfsörðugleikum
Þessum meintu uppsagnarsögum var öllum vísað til föðurhúsanna. Þá var allt í einu farið að tala um samstarfsörðugleika og það hvorki meira né minna en við stjórn KSÍ, dómaranefnd og allt starfsfólk KSÍ, þar á meðal dómarana. Þetta átti að hafa viðgengist árum saman. Nú var bleik brugðið. Þetta er grafalvarlegt mál! Get sagt ykkur það hér að það hefur ekki nokkur maður kvartað við mig um samstarfsörðugleika, hvað þá árum saman. Enda gæti ég þulið upp verkefni sem mér hafa verið falin, innanlands sem utan, sem ekki væri glóra að mér hefðu verið falin ef það væru einhverjir alvarlegir samstarfsörðugleikar í gangi! Það er bara of langt mál að þylja það allt upp hér.
Mér hefur verið sagt að ég sé of gagnrýninn og einu sinni hef ég verið skammaður fyrir að vera ósanngjarn við Magnús Jónsson dómarastjóra KSÍ eftir ákveðin samskipti sem við áttum. Ég bað Magnús að sjálfsögðu afsökunar á því og veit upp á mig skömmina. Annað er nú ekki um að ræða, svo ég geti munað. Hefði ekki verið gott að menn hefðu rætt málin, ef eitthvað var að, áður en þessi vitleysa fór í fjölmiðla. Ég er ekki einu sinni málkunnugur nema ca. helmingi stjórnar KSÍ og hef ekkert gert nema vinna af heilindum sem starfsmaður þeirra. Ég hef ekki átt í samstarfsörðugleikum við dómaranefnd KSÍ, eða starfsfólk á skrifstofu KSÍ á nokkrun hátt. Ég hef eðlilega haft skoðanir á þeim hlutum sem að mér snúa.
Eru það kannski samstarfsörðugleikar að hafa skoðanir ef þær passa ekki inn í dómaranefnd? Er það úthýsingarsök? Held varla! Dómaranefnd og starfsfólk KSÍ úthlutar dómurum störfum og sér um að halda utan um dómarana eftir því sem við á hverju sinni og ekkert óeðlilegt við það að sitt sýnist hverjum annað slagið. Mest eru auðvitað samskiptin við Magnús dómarastjóra og Birki sem m.a. var starfsmaður dómaranefndar, fyrir tíð Magnúsar, til hliðar með verkefnum mótastjórans. Ég ítreka að menn eru ekki alltaf sammála um leiðir og hafa sínar skoðanir á því. Þetta er það sem kallað er að vera vinnufélagar og skiptast á skoðunum um málin.
Ég get verið gagnrýninn og hvass en það er ekki eins og ég einn hafi skoðanir í þessu umhverfi. Núverandi dómaranefnd hefur nánast öll verið dómarar til lengri tíma og haft skoðanir og gagnrýnt. Skýtur pínu skökku við hér að ég sé eini starfsmaður KSÍ sem er dæmdur án dóms og laga fyrir að hafa skoðanir og láta vita af þeim. Einhverjir eru með beiskt bragð í kjafti! Gagnrýni verða menn að þola og yfirmenn að gera athugasemdir ef of langt er gengið og ræða málin með vitrænum hætti. Það hefur bara ekki verið gert, enda engin þörf á, utan eitt umrætt atvik.
Vegið gróflega að æru minni
Eftirfarandi ummæli frá formanni dómaranefndar KSÍ í Fréttablaðinu í síðustu viku, eru grafalvarleg og vega þungt að æru minni, ef þau eru ekki hreinlega ærumeiðandi. Það er með ólíkindum að Gylfi Þór Orrason skuli komast upp með að færa engin rök fyrir svona grófri aðför að mér sem raun ber vitni. Þetta er nánast eins og neyðarkall frá honum um að vera leystur frá störfum!
„Samstarf við Jóhannes gengur ekki upp. Ekki hjá stjórnarmönnum, dómaranefndarmönnum eða starfsmönnum sambandsins. Að velta þessum torfum upp aftur teljum við ekki knattspyrnunni til framdráttar. Það er svo einfalt mál. Við ætlum ekki að tjá okkur frekar um þetta mál.“
Ég nota því orðaforða KSÍ og segi af fullum þunga: Samstarfsörðugleikum, eins og hér er lýst, við stjórn KSÍ, dómaranefnd og samstarfsfólk hjá KSÍ er hér með vísað til föðurhúsanna.
Er verið að nota úthlutað vald í persónulegum ásetningi?
En um hvað snýst þetta mál þá? Ég vildi að ég gæti svarað því. Þetta lyktar af persónulegum illindum í minn garð. En ef það er málið? Hvernig má það vera að sjálfboðaliðar í fórnfúsu starfi dómaranefndar, sem unnið er í umboði stjórnar, geta bara úthýst starfsmanni KSÍ til 18 ára frá störfum?
Ekki misskilja mig því ég er ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr starfi dómaranefndar. Ég hef ekki sagt upp störfum hjá KSÍ og mér hefur ekki verið sagt upp störfum frá KSÍ, sem er minn vinnuveitandi. Hvernig er þetta hægt ? Hvers vegna gerist þetta?
Það vill enginn gefa útskýringar og mönnum er bannað að ræða við mig og því veit ég ekki mikið um hvað málið snýst. Sagan á götunni segir að Ari Þórðarson og Pjetur Sigurðsson, sem sjá um að raða störfum á dómarana ásamt Birki Sveinssyni mótastjóra, jafnt innanlands sem utan, hafi farið í svona svakalega fýlu við mig. Þeir hreinlega haldi KSÍ í gíslingu með þetta mál. Þessi fýla sé tilkomin vegna þess að ég tók því ekki þegjandi að vera settur út úr teymi Kristins Jakobssonar í febrúar, þar sem ég hafi verið beðinn að taka þátt og skiptast á við aðra meðlimi í teyminu. Það var eftir því tekið og umrætt að frammistaða mín var til fyrirmyndar í alla staði. Ekki hefur fallið skuggi á samstarf okkar Kristins í þessum verkefnum, og hefur því ekkert með þessa ákvörðun að gera.
Sama saga segir að Gylfi Þór hafi viljað leysa þessi mál á vormánuðum en þeir félagar hafi hótað að hætta störfum ef það yrði lausnin (Geir formaður og Þórir framkvæmdastjóri hafa staðfest að einhverjir úr nefndinni hótuðu að segja af sér ef ég kæmi inn aftur – ónafngreint). Þetta vill Gylfi alls ekki og því segir sagan að formaður dómaranefndar komi fram með þessum grimma hætti til að bakka „sína“ menn upp með öllum tiltækum ráðum. Hann myndi sjálfur kalla þetta „að verja vonlausan málstað“ en munurinn er sá að hann hefur völd til að streitast á móti máttlausum vörnum mínum!
Hann er formaður dómaranefndar öðru megin við borðið og varaformaður KSÍ hinu megin. Hann neitar því að útskýra málin, neitar mönnum að tala um málin og lemur af sér þá sem vilja leysa málin og einnig þá sem hafa boðist til að miðla málum.
Þar sem ég fæ ekkert að vita og það hefur ekki nokkur maður frá KSÍ rætt við mig um þetta mál, hvorki fyrir viðtalið í febrúar né eftir, þá veit ég lítið um orsakir þessa máls nema þær litlu sögur sem ganga á götunum. Ef þær eru sannar þá er um grafalvarlegt mál að ræða og ekki fráleitt að tala um einelti í minn garð eða grófa tilraun til að ræna mig ærunni. Ekki síst þar sem engar ástæður hafa komið frá nefndinni og framkvæmdastjóri KSÍ (sem er sá eini sem hefur þó sagst vilja leysa þetta mál þar sem honum virtist það ekki vera alvarlegt) hefur á endanum vísað öllu á dómaranefnd, sem aftur neitar að ræða málið.
Níu mánaða barátta fyrir lausn og sáttum
Nú virðist það vera ljóst að ég muni aldrei aftur starfa fyrir KSÍ (samkvæmt viðtali við Gylfa), þrátt fyrir að hafa sýnt í mjög mörg ár hverju ég get áorkað sem dómari hjá KSÍ og við uppbyggingu að dómaramálum. Því má spyrja hvers vegna í ósköpunm ég sé að þumbast þetta? Svarið er einfalt: Ástríða mín fyrir starfinu er slík að ég hef reynt af öllum mætti að fá menn til að leysa þetta, takast í hendur og sættast, en án árangurs. Maður hefur jú gefið allt sem maður á í þetta starf og sett allt aftur fyrir, meira að segja fjölskylduna oftar en ekki og getur varla sætt sig við svona trakteringar.
Hitt er að það er verið að brjóta á mér með mjög svo grófum hætti, ráðast að æru minni og jafnvel mætti nefna enn grófari hluti. Það er bara algjörlega óþolandi að fá ekki svör við þessum dylgjum og aðdróttunum að persónu minni. Þar sem enginn hjá KSÍ virðist sjá sóma sinn í að verja einn sinn besta starfsmann þá neyðist ég til að berjast með fjölskylduna eina að vopni. Það er sárt að horfa upp á að þessir menn í dómaranefnd hafa flestir verið ágætir vinir mínir, og sumir jafnvel góðir vinir mínir, til allt að 15 ára og dómaranefndarmaðurinn Eyjólfur Ólafsson segist t.a.m. ekki mega ræða þetta málefnalega við mig.
Fullorðnum mönnum er bannað að tala við vini sína um vandamál þeim báðum tengdum? Félagarnir í dómarahópnum horfa bara upp á einn úr hópnum "krossfestan“ og hafast ekkert að, kannski eðlilega, því þeir gætu orðið næstir! Þetta er bara þung byrði að bera. Svona meðhöndlun hefur beygt stærri menn en Jóhannes Valgeirsson.
Ég segi ykkur sem nennið að lesa að ég hef orðið fyrir hróplegu óréttlæti og það er verið að bera á mig gróf ósannindi í formi yfirlýsinga með dylgjum og óhróðri.
Þeir sem þekkja mig vita að ég er góður starfsmaður sem reyni að gera allt eins vel og ég get og er tilbúinn að leggja mikið á mig til að ná árangri. Ég á þessa ósanngjörnu meðhöndlun svo alls ekki skilið. En hvers vegna sitja allir hjá og láta þetta gerast? Hvers vegna leyfa þessir menn sér að fara svona langt með þetta mál. Líklega lítinn snjóbolta, sem hugsanlega varð til í fýlu og pirringi út í mig ef sögur er að marka, og láta hann verða að hálfgerðu snjóflóði ! Þetta lýsir ákveðnum valdhroka.
Eru þeir of stórir upp á sig til að kyngja smá stolti, skamma mig og birta mér brot mitt ef ég hef gert eitthvað af mér, og taka síðan í útrétta sáttahönd og klára málið? Það að þetta skuli hafa farið svona langt án nokkurar umræðu, án útskýringa og án nokkurs vilja til sátta segir manni kannski að þetta er bara litlir menn og hrokafullir, með vald sem þeir vilja nýta sér.
Eða eins og einn aðili sagði við mig: „þetta eru bara menn sem nota valdið sem þeim er fært í hendur í persónulegum tilgangi, með ásetningi er virðist, og vinna eftir frasanum, „I do it because I can“ (Ég geri þetta af því að ég get það og kemst upp með það)“. Hvort sem það er rétt eða ekki þá er þetta grafalvarlegt mál í alla staði og maður skilur bara ekki hvers vegna það er ekki búið að grípa inn í til að leysa þessa vitleysu fyrir mörgum mánuðum, öllum til hagsbóta.
Mér var kennt að fyrirgefa og hef sjálfur í mínu prívat lífi upplifað fyrirgefningu svo að ég stend því auðvitað áfram með útrétta sáttahönd fyrir þá sem vilja ljúka þessari glórulausu vitleysu. Hvort ég muni starfa aftur fyrir KSÍ verður að koma í ljós en að óbreyttu hef ég ekki áhuga, þrátt fyrir að hafa mjög mikið að gefa til íþróttarinnar eins og menn eflaust vita.
Þetta mál er komið býsna nálægt því að beygja okkur hjónin og því verður ekki skrifað meira um þetta mál af minni hálfu. Vona að þetta nægi ykkur þeim fjölmörgu sem hafið kallað eftir grein frá mér um megin efni þessa máls eins og við fjölskyldan sjáum það.
Virðingarfyllst
Jóhannes Valgeirsson
Knattspyrnudómari