,,Ég er mjög ánægður með þetta. Við höfðum alveg trú á þessu fyrir þennan leik og fyrir sumar að við erum með ágætis lið. Við erum ekkert á því að við séum eins lélegir og menn halda, okkur finnst það ekki og við ætlum að gera okkar besta í hverjum leik,“ sagði Ingólfur Þórarinsson, leikmaður Selfoss, eftir 2-1 sigurinn gegn ÍBV í fyrsa leik Pepsi-deildarinnar í kvöld.
Flestir spá Selfyssingum neðsta sæti deildarinnar en liðið sýndi það í dag að ekki má vanmeta nýliðana og Ingó sér ekki mikinn mun á liðunum í deildinni.
,,Ég hugsa að þeir hafi ekki vanmetið okkur, finnst það mjög skrítið hefðu þeir gert það. Kannski sérfræðingar gera það en við höfum spilað marga leiki á undirbúingstímabilinu og verið ágætir. Við höfum fengið fína útlendinga til að styrkja hópinn og ég sé ekki mikinn mun á þessum liðum í þessari deild. Ég held að það verði bara jafnt í sumar, við tökum einn leik í einu og reynum að gera okkar besta,“ bætti Ingó við.
,,Við lágum til baka heilt yfir í þessum leik en erum með fljóta leikmenn fram á við. En við þurfum að reyna halda boltanum betur því það er erfitt að láta miðjumenn hlaupa endalaust. Það kemur með tímanum, held þetta hafi verið smá sviðskrekkur í fyrsta leik. Þeir héldu boltanum betur en við sköpuðum fleiri færi."
Ingó hafði þarna betur gegn yngri bróður sínum Guðmundi Þórarinssyni. Auk þess að leika í Pepsi-deildinni í sumar eru þeir bræður á fullu í tónlistinni.
,,Ég hef alltaf sagt að ég sé betri í fótbolta en hann en Gummi er betri söngvari,“ sagði Ingó að lokum.
Athugasemdir