Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 12. júní 2012 14:00
Magnús Már Einarsson
Bestur í 1. deild: Fúlsum ekkert við fyrsta sætinu
Illugi Þór Gunnarsson (Fjölnir)
Mynd: Fótbolti.net - Torfi Jóhannsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það er gaman að fá þennan heiður," segir Illugi Þór Gunnarsson leikmaður Fjölnis en hann er leikmaður umferðarinnar í 1. deild karla. Illugi var öflugur á miðjunni þegar Fjölnir sigraði Víking R. 6-2 á útivelli síðastliðinn laugardag.

,,Það er ekki amalegt að skora sex mörk á móti Víkingi sem var bara búið að fá á sig eitt mark fyrir þennan leik. Maður býst ekki við að skora sex mörk, við bjuggumst við hörkuleik sem þetta var í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn gekk vonum framar."

Fjölnismenn hafa skorað 17 mörk í fyrstu deildinni í sumar. Illugi skoraði sex mörk í deildinni í fyrra en hann er sjálfur ekki kominn á blað í sumar.

,,Menn hafa gaman að því að skora mörk í Grafarvoginum. Það eru sautján mörk komin og ég hef ekki þurft að skora ennþá, þetta fer að detta inn hjá mér."

Fjölnir er í öðru sæti deildarinnar eftir fimm umferðir, stigi á eftir toppliði Þórs. Opinbert markmið í Grafarvoginum er að komast upp í Pepsi-deildina á nýjan leik.

,,Það er stefnt á að fara upp. Við stefnum á annað sæti eins og Gústi þjálfari hefur talað um en við fúlsum samt ekkert við fyrsta sætinu. Þetta hefur gengið vel hjá okkur í byrjun og þetta lofar góðu."

Illugi skrifaði sjálfur undir nýjan samning við Fjölnismenn í vikunni. Illugi hefur verið undir smásjá félaga í Pepsi-deildinni en hann ákvað hins vegar að framlengja samning sinn við Fjölni til ársins 2014.

,,Pepsi-deildarliðin geta boðið í mig bara. Fjölnir verður að fá eitthvað fyrir sinn snúð líka en vonandi spila ég bara með þeim í Pepsi-deildinni næsta sumar."

Næsti leikur Fjölnis er á föstudag en þá heimsækir liði Leiknismenn í Breiðholtið. Leikir þessara félaga hafa oftast nær verið mjög fjörugir og Illugi býst við markaveislu á föstudag.

,,Miðað við undanfarna leiki má búast við því en við reynum að passa að þeir skori ekki mikið þó að við stefnum alltaf á að skora nokkur mörk sjálfir," sagði Illugi að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 4. umferðar - Nigel Quashie (ÍR)
Leikmaður 3. umferðar - Ásgeir Aron Ásgeirsson (Fjölni)
Leikmaður 2. umferðar - Robin Strömberg (Þór)
Leikmaður 1. umferðar - Birkir Pálsson (Höttur)
Athugasemdir
banner
banner
banner