þri 19. júní 2012 15:00
Magnús Már Einarsson
Bestur í 1. deild: Óþolandi spennandi
Leikmaður 6. umferðar: Björn Pálsson (Víkingur Ó.)
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
,,Þetta var góður leikur og það er allt í blóma í Ólafsvík," segir Björn Pálsson miðjumaður Víkings Ólafsvíkur en hann er leikmaður umferðarinnar í 1. deildinni. Björn var mjög öflugur á miðjunni og skoraði bæði mörk Víkings í 2-0 útisigri á Haukum um helgina.

,,Þeir voru fyrir ofan okkur í tölfunni fyrir leikinn en við komumst upp fyrir þá. Það er gaman að vera í tveimur efstu sætunum þó að það telji ekkert mikið núna. Það er skemmtilegra í staðinn fyrir að vera að elta," segir Björn en Ólafsvíkingar stefna á að koma upp í Pepsi-deildina.

,,Klárlega. Við getum það alveg eins og allavega fjögur lið í viðbót. Þetta verður mjög jafnt og þetta er eiginlega óþolandi spennandi."

Ætlaði að spila með Stjörnunni:
Björn gekk til liðs við Víking á láni frá Stjörnunni í júlí í fyrra eftir að hafa fengið fá tækifæri með Garðbæingum framan af sumri. Hann gekk síðan aftur til liðs við Víking fyrir sumarið þegar hann sá fram á að fá lítið af tækifærum í Garðabænum.

,,Ég ætlaði að spila með Stjörnunni í sumar en ég fann að það var ekki að ganga og vildi ekki lenda í því sama og fyrra. Þó að maður þurfi að keyra svolítið aukalega til að spila fyrir Ólafsvík þá er það samt skemmtilegra."

,,Ég bý í bænum og æfi með Stjörnunni eins og ég get. Það er allt í góðu þar, Bjarni Jó sýndi þessu skilning og leyfði mér að fara,"
segir Björn sem kann vel við sig í Ólafsvík.

,,Þetta er ekki stór bær en þeir sem eru stuðningsmenn eru virkilega stuðningsmenn. Maður finnur mikið fyrir því að þetta skiptir fólk máli og nálægðin er aðeins meiri."

Fleiri Ólafsvíkingar á vellinum:
Stuðningsmenn Ólafsvíkur eru duglegir að mæta á völlinn og þar á meðal er Gunnar Sigurðarson, Gunnar á Völlum, sem mætti og lét í sér heyra á Ásvöllum.

,,Hann kom inn í klefa og það var gaman að því. Maður veit að hann er grjótharður Ólsari og hann fer ekkert leynt með það. Það eru margir sem eru álíka harðir og hann og það var ágætis mæting á leikinn. Gott ef það voru ekki fleiri Ólsarar á vellinum en Haukar."

Sjá einnig:
Leikmaður 5. umferðar - Illugi Þór Gunnarsson (Fjölnir)
Leikmaður 4. umferðar - Nigel Quashie (ÍR)
Leikmaður 3. umferðar - Ásgeir Aron Ásgeirsson (Fjölni)
Leikmaður 2. umferðar - Robin Strömberg (Þór)
Leikmaður 1. umferðar - Birkir Pálsson (Höttur)
Athugasemdir
banner
banner
banner