Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, var svekktur eftir 2-0 tap gegn ÍA í Inkasso-deild karla í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍA 2 - 0 Selfoss
„Ég er óánægður með að tapa, við ætluðum allavega að sækja gott stig á erfiðum velli. Við fáum okkur tvö mörk úr föstum leikatriðum, ég ér óánægður með það - við höfum verið sterkir í föstum leikatriðum. Annars er ég mjög sáttur með strákanna," sagði Gunnar eftir leik.
„Við fengum mjög mikið af föstum leikatriðum á góðum stað. Við skorum tvö mörk í síðasta leik úr föstum leikatriðum, en það datt ekki með okkur í dag. Við erum óheppnir að skora ekki í fyrri hálfleik."
Selfoss er í tíunda sæti með átta stig úr tíu leikjum. Það getur ekki verið ásættanlegur árangur á Selfossi.
„Ég hef ekki áhyggjur af minni stöðu sem þjálfara. Eins og ég hef sagt áður, þá erum við í þessum saman, alla leið saman. Það er erfitt þegar gengur illa - það vantar ótrúlega lítið upp á. Við höfum farið undir alla steina og undir þessum steinum þarf maður að finna svör. Ef eitt af þessum svörum er að henda kallinum út þá er ég fyrsti maður til að stíga til hliðar."
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir