Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 04. júní 2019 13:30
Arnar Daði Arnarsson
Þórsarar minnast Baldvins - Minningarsjóður stofnaður
Baldvin Rúnarsson er fallinn frá.
Baldvin Rúnarsson er fallinn frá.
Mynd: N4 - Skjáskot
Alvaro Montejo fagnar marki sínu á laugardaginn og minnist Baldvins í fagni sínu.
Alvaro Montejo fagnar marki sínu á laugardaginn og minnist Baldvins í fagni sínu.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Þórsarinn, Baldvin Rúnarsson 25 ára Akureyringur lést síðastliðinn föstudag eftir að hafa háð harða baráttu við krabbamein til margra ára.

Baldvin ólst upp í Þór og lék með félaginu upp alla yngri flokka. Síðustu ár hefur hann þjálfað yngri flokka félagsins. Hann lék knattspyrnu þangað til veikindin fóru að herja á hann en hann lék með Magna í 3. deildinni sumarið 2014 auk leikja í undirbúningsmótunum fyrir tímabilið 2015.

Þórsarar léku með sorgarbönd í 2-0 sigri liðsins gegn Þrótti í Inkasso-deildinni á laugardaginn. Til stóð að fresta leiknum vegna andláts Baldvins en tekin var hinvegar þá ákvörðun að spila leikinn fyrir Baldvin.

Leikmenn Þórs fögnuðu mörkum sínum í leiknum með því að benda til himins og minnast þar með fallins félaga. Jónas Björgvin Sigurbergsson leikmaður Þórs er fæddur sama ár og Baldvin og lék með honum upp alla yngri flokka Þórs. Hann var í tilfinningaþrungnu viðtali eftir sigurinn gegn Þrótti á laugardaginn þar sem hann sagði til að mynda að leikmennirnir hafi spilað fyrir Baldvin.

„Við spiluðum fyrir hann í dag og gerum það um ókomna tíð. Hann hefði viljað spila þennan leik í dag. Við tókum það með inn á völlinn í dag sem hann kenndi okkur með lífinu. Hann gafst aldrei upp. Þetta var ótrúlegur gæi og ég held ég muni aldrei koma til með að kynnast svona eintaki. Ég er fáránlega stoltur að hafa fengið að njóta þeirra stunda með honum á meðan hann var enn með okkur," sagði Jónas í viðtalinu.

Stofnaður hefur verið minningarsjóð um Baldvin.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja einstaklinga, hópa eða félög á sviði íþrótta- og mannúðarmála. „Þeim, sem vilja minnast Baldvins heitins, þess eldheita Þórsara, er vinsamlega bent á reikning sem opnaður hefur verið í nafni bróður hans, Hermanns Helga Rúnarssonar. Allt fé sem safnast verður fært í minngarsjóðinn, þegar hann hefur verið formlega stofnaður," segir í textanum um minningarsjóðinn.

Baldvin sagði sögu sína á sjónvarpstöðinni N4 í byrjun árs.

Baldvin verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju miðvikudaginn 12. júní klukkan 13:30.

Fótbolti.net sendir samúðarkveðjur til fjölskyldu og vinar Baldvins heitins. Blessuð sé minning Baldvins Rúnarssonar.

Reikningsnúmer: 565-14-605
Kennitala: 020800-2910



Jónas Björgvin: Við tókum það með okkur inn á völlinn sem Baldvin kenndi okkur
Athugasemdir
banner
banner
banner