Ágúst Leó Björnsson framherji Þróttar R. er frá út tímabilið eftir að hafa slitið krossband á dögunum.
Þetta staðfesti Þórhallur Siggeirsson þjálfari Þróttar eftir 7-0 sigur gegn Magna í dag.
Ágúst Leó er fæddur 1997 og er kominn með þrjú mörk í sex deildarleikjum í sumar.
Hann lék fyrir ÍBV og Keflavík í fyrra og skoraði aðeins eitt mark í ellefu leikjum í Pepsi Max-deildinni en í dag er hann afar mikilvægur hlekkur í liði Þróttar.
„Þetta er bara áfall fyrir hópinn og hann, við erum bara eins og flest lið að við erum að glíma við meiðsli," sagði Þórhallur þjálfari.
Þróttur er í 8. sæti Inkasso-deildarinnar eftir sigurinn í dag, með þrettán stig eftir tíu umferðir.
Athugasemdir