Oliver Glasner þjálfari Crystal Palace svaraði spurningum eftir jafntefli á heimavelli í Lundúnaslag gegn Fulham.
Glasner er ánægður með stigið en Palace tók forystuna í fyrri hálfleik og jöfnuðu gestirnir frá Fulham á 80. mínútu til að bjarga stigi.
Glasner var ánægður með sína menn eftir leikinn en segir þá hafa verið alltof þreytta í seinni hálfleiknum vegna mikils leikjaálags.
„Við erum að berjast fyrir lífi okkar og vorum lengi vel í nauðvörn í seinni hálfleiknum. Við vorum góðir á meðan fótleggirnir leyfðu okkur það, en strákarnir urðu þreyttir þegar tók að líða á leikinn og það sást augljóslega. Í seinni hálfleiknum var þetta meira spurning um hvenær þeir myndu skora jöfnunarmarkið frekar en hvort," sagði Glasner.
„Ég gat séð hversu mikla vinnu og hjarta strákarnir lögðu í þessa frammistöðu. Leikjaálagið er brjálað og við erum ekki með stóran hóp. Þó að hópurinn sé ekki stór þá veit ég að leikmennirnir sem eru til staðar eru alltaf tilbúnir til að gefa sig alla í verkefnið. Þeir leggja sig alltaf fram og gera sitt allra besta."
Marco Silva þjálfari Fulham sagði í viðtali að leikslokum að þeir hafi vitað það fyrir leik að leikmenn Palace yrðu þreyttir í seinni hálfleiknum. Fulham nýtti sér það.
„Ég hef ekki áhyggjur af þessu, leikmenn eru að koma til baka úr meiðslum og þá verður þetta auðveldara. Ég býst ekki við vandamálum næstu vikur. Þetta er gott stig í dag, sérstaklega miðað við hvað strákarnir voru þreyttir. Við erum ánægðir með jafnteflið."
Jean-Philippe Mateta, sem er orðaður við Manchester United, skoraði eina mark Palace í leiknum og hrósaði Glasner honum að leikslokum. Þetta var aðeins annað markið hans í síðustu átta leikjum en Glasner bendir á að Mateta er fjórði markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar frá komu þýska þjálfarans til Englands, á eftir Erling Haaland, Mohamed Salah og Cole Palmer.
„Þetta snýst ekki um sjálfstraust, við fáum mörk á okkur seint í leikjum þegar við erum orðnir þreyttir líkamlega og andlega. Það eru þrír leikir framundan og svo fáum við smá hvíld. Þetta er ekki tíminn til að spila frábæran fótbolta, þetta er tíminn til að taka einn leik í einu og eitt stig í einu."
Glasner var að lokum spurður út í yfirvofandi félagaskipti Brennan Johnson en neitaði að tjá sig.
Athugasemdir





