Fyrstu umferðinni í sænsku deildinni er nú lokið en Andri Fannar Baldursson lagði upp í 2-2 jafntefli Elfsborg gegn Varnamo.
Hann var í byrjunarliðinu og lagði upp fyrra mark liðsins snemma leiks. Liðið komst í 2-0 en fékk á sig mark undir lok fyrri hálfleiks og Varnamo jafnaði metin snemma í þeim síðari.
Stefán Teitur Þórðarsson var á skotskónum þegar Silkeborg og AGF mættust í efri hlutanum í dönsku deildinni. Hann kom liði sínu yfir en AGF náði forystunni áður en Callum McCowatt jafnaði metin og tryggði Silkeborg stig.
AGF er í 5. sæti með 37 stig, átta stigum á eftir FCK sem er í 3. sæti sem gefur þátttökurétt í Sambandsdeildinni. Silkeborg er í 6. sæti með 28 stig.
Stefán var tekinn af velli þegar tæpur stundafjórðungur var til loka venjulegs leiktíma. Mikael Neville Anderson lék allan leikinn í liði AGF.
Patrik Sigurður Gunnarsson varði mark Viking sem lagði Sarpsborg 1-0 í fyrstu umferð norsku deildarinnar.
Elías Rafn Ólafsson var á sínum stað í rammanum hjá Mafra þegar liðið vann sterkan 2-1 sigur á Torreense í næst efstu deild í Portúgal. Mafra er í 8. sæti deildarinnar með 38 stig, stigi á eftir Torreense sem er í sætinu fyrir ofan.