fim 01. ágúst 2013 19:45
Magnús Már Einarsson
Gulli Gull: Þetta er betra lið en Sturm Graz
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, segir að leikmenn liðsins séu svekktir eftir 1-0 tap gegn Aktobe í Kasakstan í kvöld. Heimamenn skoruðu eina markið úr vítaspyrnu undir lok leiks.

,,Við vissum að við værum að spila við gríðarlega erfitt lið og þeir pressuðu mikið á okkur. Við vorum búnir að verjast vel í 90 mínútur þegar þeir fá víti. Það er svekkjandi fyrir okkur að vera nánast búnir að halda þetta út og taka 0-0 á þessum erfiða velli þegar við fáum á okkur víti. Við erum svekktir," sagði Gunnleifur við Fótbolta.net í kvöld.

Þórður Steinar Hreiðarsson fékk á sig vítaspyrnuna undir lokin en hann reyndi að forðast snertingu við leikmann Aktobe sem datt samt sem áður.

,,Það var alveg hægt að dæma víti á þetta. Þórður Steinar segir að hann hafi leikið þetta ansi vel en dómarinn dæmdi víti og það verður bara að hafa það."

Breiðablik sló út Sturm Graz frá Austurríki í síðustu umferð en Gunnleifur telur að lið Aktobe sé betra.

,,Þetta er betra lið, það er engin spurning. Þeir eru miklu aggresívari sem heild og eru með mjög gott sóknarlið. Ég efast samt ekki um að þjálfararnir eigi eftir að skoða þennan leik og sjá punkta sem við getum nýtt okkur í seinni leiknum."

,,Við teljum okkur eiga möguleika á móti þeim og ef maður leyfir sér að hugsa fram yfir næsta leik sem er gegn Fram á sunnudag, þá munum við gera allt sem við getum til að ná þeim úrslitum sem við þurfum til að komast áfram."

Breiðablik flýgur til Þýskalands í kvöld og heim til Íslands á morgun en liðið mætir Fram í undanúrslitum Borgunarbikarsins á Laugardalsvelli á sunnudag. Síðari leikurinn gegn Aktobe verður einnig á Laugardalsvelli.

,,Það er gaman að spila á Laugardalsvelli. Við erum vanir því að hafa hlaupabraut á vellinum á Kópavogsvelli líka. Það verður gaman að spila við Fram á sunnudag," sagði Gunnleifur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner