Grindavík fór í Mosfellsbæ í kvöld og þurftu að sætta sig við 3-1 tap gegn Aftureldingu í 13. umferð Lengjudeildar kvenna.
„Virkilega svekkjandi og við bara klúðruðum þessu upp á eigin spýtur, alveg sjálfar þarna í fyrri hálfleik, bara mættum ekki til leiks og létum þær bara taka okkur hægri vinstri og töpuðum fyrsta, öðrum og þriðja bolta sennilega á vellinum," sagði Anton Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur eftir leik.
Lestu um leikinn: Afturelding 3 - 1 Grindavík
Dominiqe Evangeline Bond-Flasza fékk að líta rauða spjaldið á 42. mínútu eftir að hafa brotið á Hildi Karítas Gunnarsdóttur.
„Ég sá það nú ekki nógu vel, ég bara sá að hún lá þarna eftir. Mér fannst nú samt bekkurinn hjá Aftureldingu fá nú svolítið að öskra og draga mannskapinn með sér í eitthvað dót og dómarinn eða aðstoðardómarinn svolítið fylgdi þeirra bekk og það er greinilegt að maður þarf kannski að fara að endurskoða starfsliðið sitt og fá einhverja sem eru vel hávær þarna til að stýra og stjórna dómgæslunni."
Þrátt fyrir að vera einum færri allan seinni hálfleikinn steig Grindavíkurliðið upp og voru þéttar.
„Mér fannst við bara töluvert betri heldur en í fyrri hálfleiknum sem bara segir okkur að við vorum að spila langt undir getu og tempói þarna í fyrri hálfleik. Stelpurnar komu af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn og lögðu bara allt sem þær áttu í þetta og bara virkileg frammistaða hjá þeim," sagði Anton.
Nánar er rætt við Anton í spilaranum hér fyrir ofan.























