fös 01. október 2021 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jón Þór: Þetta er eins og að fara þrjátíu ár aftur í tímann
Jón Þór Hauksson.
Jón Þór Hauksson.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Svona voru astæður á mánudag.
Svona voru astæður á mánudag.
Mynd: Jón Hálfdán Pétursson / Vestri
Við erum búnir að undirbúa okkur vel fyrir Víkinga en fyrst og fremst byggist okkar undirbúningur á okkur sjálfum.
Við erum búnir að undirbúa okkur vel fyrir Víkinga en fyrst og fremst byggist okkar undirbúningur á okkur sjálfum.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Vestri mætir Víkingi í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á morgun. Af því tilefni ræddi fréttaritari Fótbolta.net við Jón Þór Hauksson, þjálfara Vestra í gær.

Leikurinn á morgun hefst klukkan 14:30 og fer fram á Meistaravöllum, heimavelli KR. Fram hefur komið að heimavöllur Vestra sé ekki leikhæfur og því fékk liðið heimavöll KR að láni. Vestri hefur í vikunni æft í Borgarnesi.

Þakklátir Borgnesingum
Hvernig líst þér á þennan leik?

„Mér líst mjög vel á þetta. Við erum að æfa við góðar aðstæður í Borgarnesi og reynum að undirbúa liðið eins vel og við getum. Við vorum að koma úr mjög erfiðum aðstæðum en í augnablikinu erum við í frábærum aðstæðum í Borgarnesi og eigum vinum okkar þar mikið að þakka að komast í þessar frábæru aðstæður. Það er jákvæður andi í hópnum, æfingarnar hafa gengið vel þannig við erum bara spenntir."

Vestfirðir langt á eftir þegar kemur að aðstöðu
Er svekkelsi að þurfa að spila á hlutlausum velli?

„Já, að sjálfsögðu. Það er það fyrst og fremst fyrir fólkið fyrir vestan og það fólk sem var búið að gera ráðstafanir með flug, gistingu og öðru."

„Þetta er ekki gott mál en svona er blákaldur veruleikinn að stunda fótbolta og íþróttir á Vestfjörðum. Aðstæðurnar eru mjög bágbornar miðað við hvernig þær eru annars staðar í kringum landið. Við erum langt, langt á eftir. Þetta er eins og að fara þrjátíu ár aftur í tímann, vetraraðstaðan sem menn búa við er mjög, mjög döpur."


Einn besti völlur á Íslandi
Hvernig líst þér á að spila á Meistaravöllum?

„Við erum ánægðir með þá lausn. Það snerist bara um að komast á eins góðan grasvöll og hægt er. Þegar þetta gekk ekki upp með Kaplakrika þá var KR-völlurinn næsti kostur. Völlurinn er frábær og einn sá besti á Íslandi. Við erum mjög glaðir með þessa lausn, úr því sem komið var, að spila leikinn á mjög góðum grasvelli."

Verða margir á móti Vestra í leiknum
KR, sem lánar ykkur völlinn, á möguleika á Evrópusæti en þarf að treysta á að þið tapið gegn Víkingi.

„Já, það er alveg ljóst að KR á mikið undir í þessum leik. Þeir vonast eftir því að við töpum þessum leik eins og allir Víkingar. Ég á von á því að það verði fjölmargir sem verða á móti okkur í þessum leik. Sem betur fer höfum við mjög sterkt bakland og ég geri ráð fyrir því að aðrir landsmenn flykkist á bakvið okkur og styðji okkur í þessum leik gegn Íslandsmeisturunum. Það er áskorun sem við verðum að takast á við."

Bras út af veðri og aðstöðuleysi - Vonandi allir klárir
Hvernig er standið á leikmannahópnum?

„Þetta er búinn að vera svolítið brattur tími þessar síðustu tvær vikur. Við náðum ekki neinni æfingu fyrir leikinn gegn Kórdrengjum, spiluðum við ÍBV á sunnudegi og Kórdrengi svo á föstudegi. Við náðum ekkert að æfa þar á milli. Það var byrjað að snjóa og við treystum okkur ekki til að fara á gervigrasið því það er það gamalt og lélegt, við hefðum getað pikkað upp meiðsli þar. Sá völlur er því miður bara meiðslahætta."

„Við þurftum að passa upp á okkar hóp, hann er ekki stór fyrir og við máttum ekki við meiðslum. Nú er bara kapphlaup við tímann og við erum að gera allt sem við getum til að þeir leikmenn sem eru tæpir verði klárir og við vonumst til þess."


Gríðarlega erfitt verkefni
Hvað þurfið þið að gera til að leggja Víking að velli?

„Víkingur er auðvitað frábært fótboltalið sem tryggði sér Íslandsmeistaratititilinn um síðustu helgi og hefur verið að spila frábærlega á þessu tímabili."

„Það er valinn maður í hverju rúmi þar og rúmlega það. Þeir eru með gríðarlega öflugan leikmannahóp og Arnar hefur verið að gera frábæra hluti með þetta lið sem auðvitað hefur ekki farið framhjá neinum."

„Okkur bíður gríðarlega erfitt verkefni og annan bikarleikinn í röð erum við að spila á móti ríkjandi Íslandsmeisturum sem er önnur sturluð staðreynd. Við vonumst til þess að við verðum með okkar leikmannahóp í standi á laugardaginn."

„Við viljum njóta dagsins og njóta þess að vera í þessari keppni. Það er svolítið það sama og fyrir Valsleikinn. Við erum búnir að undirbúa okkur vel fyrir Víkinga en fyrst og fremst byggist okkar undirbúningur á okkur sjálfum,"
sagði Jón Þór að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner