Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 02. janúar 2023 14:32
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Bjargaði stigi fyrir Celtic á Ibrox í skemmtilegum leik
Kyogo Furuhashi skoraði jöfnunarmarkið.
Kyogo Furuhashi skoraði jöfnunarmarkið.
Mynd: EPA
Rangers 2 - 2 Celtic
0-1 Daizen Maeda ('5)
1-1 Ryan Kent ('47)
2-1 James Tavernier ('53)
2-2 Kyogo Furuhashi ('88)

Rangers og Celtic mættust í erkifjendaslag í skosku deildinni í dag. Leikurinn var heimaleikur Rangers og því leikið á Ibrox leikvanginum.

Celtic er ríkjandi meistari og komst liðið yfir með marki frá Japananum Daizen Maeda strax á fimmtu mínútu leiksins. Celtic leiddi í leikhléi en Rangers sneri taflinu sér í vil í upphafi seinni hálfleiks.

Fyrst skoraði Ryan Kent frábært mark eftir undirbúning frá Fashion Sakala og sex mínútum síðar var bakvörðurinn James Tavernier búinn að koma heimamönnum yfir með marki úr vítaspyrnu - fast og öruggt víti.

Celtic vildi halda öryggri forystu á Rangers í deildinni og tókst að koma inn jöfnunarmarki skömmu fyrir leikslok. Boltinn féll fyrir Kyogo Furuhashi, annan Japana í liði Celtic, í teignum og kom hann boltanum í netið tveimur mínútum áður en venjulegum leiktíma lauk.

Bæði lið leituðu að sigurmarkinu en tókst ekki að finna það þrátt fyrir að sjö mínútum væri bætt við. Rangers kom sér í fleiri góðar sóknarstöður í leiknum, átti fleiri tilraunir en það dugði ekki nema fyrir einu stigi. Kannski það óvæntasta í leiknum var að fyrsta gula spjaldið fór ekki á loft fyrr en í uppbótartíma.

Celtic er áfram með níu stiga forskot á toppi deildarinnar. Rangers er í öðru sætinu, átján stigum á undan Aberdeen sem er í 3. sætinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner