Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 02. maí 2021 21:09
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Ekki sofa á KR - Sölvi hetja Víkinga
KR vann í Kópavogi.
KR vann í Kópavogi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar er alltaf flottur.
Óskar er alltaf flottur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sölvi Geir skoraði sigurmark Víkinga.
Sölvi Geir skoraði sigurmark Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í aðdraganda Íslandsmótsins hefur verið mikið talað um Breiðablik sem mögulega Íslandsmeistarakandídata. Það hefur verið minna talað um KR. Ekki sofa á Rúnari Kristinssyni og hans lærisveinum, það er ekki sniðugt.

KR byrjaði af miklum krafti á Kópavogsvelli í kvöld þegar þeir heimsóttu Breiðablik.

Óskar Örn Hauksson skoraði fyrsta markið á 11. mínútu leiksins. „Stefán Árni fær boltann á miðsvæðinu og rennir boltanum út til hægri á Óskar Örn sem keyrir inn að marki og á frábært skot rétt fyrir utan teig sem endar í nærhorninu!" skrifaði Arnar Laufdal í beinni textalýsingu.

Það er ekkert farið að hægjast á Óskari þrátt fyrir að hann sé að verða 37 ára gamall.

Fjórum mínútum eftir að Óskar skoraði, þá bætti Kennie Chopart við marki. „Kristján Flóki fer upp í skallaeinvígi á miðjum vallarhelmingi Blika, boltinn dettur á Kennie Chopart og það leit út eins og hann ætlaði að gefa fyrirgjöf fyrir markið. Anton í markinu er að búast við fyrirgjöf. Viti menn... fyrirgjöfin endar í markinu..." skrifaði Arnar Laufdal. Anton Ari leit ekki vel út í markinu.

KR var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og staðan, 2-0, sanngjörn þegar flautað var til hálfleiks.

Gísli Eyjólfsson fékk fínt færi til að minnka muninn í byrjun seinni hálfleiks en skot hans fór rétt fram hjá. Stuttu síðar komst KR næstum því í 3-0 en Kristján Flóki Finnbogason náði ekki að reka stóru tána í boltann eftir sendingu Atla Sigurjónssonar.

KR gerði mjög vel í seinni hálfleik og náðu að landa sigrinum nokkuð þægilega heim. Lokatölur 2-0 og KR hefur áfram gott tak á Breiðablik en Vesturbæingar unnu báða leiki þessara liða á síðustu leiktíð. KR fer upp að hlið FH og Vals á toppi deildarinnar. Þessi þrjú lið unnu sína leiki í fyrstu umferðinni með markatölunni 2-0.

Víkingur lagði nýliða Keflavíkur
Í Fossvogi voru nýliðar Keflavíkur í heimsókn hjá Víkingi. Í fyrra ætluðu Víkingar sér að berjast um Íslandsmeistaratitilinn en það eru ekki eins miklar væntingar á liðinu í ár.

Þeir byrja hins vegar á fínum sigri á heimavelli. Varnarjaxlinn Sölvi Geir Ottesen skoraði á 19. mínútu. „Hornið tekið stutt inn að vítateig, boltinn lagður til baka á Pablo sem teiknar fyrirgjöfina beint á kollinn á Sölva sem stangar boltann í netið. Dekkningin klikkaði illilega í teig Keflavíkur þarna en sanngjörn staða miðað við þróun leiksins," skrifaði Sverrir Örn Einarsson í beinni textalýsingu.

Seinni hálfleikurinn var frekar bragðdaufur. Joey Gibbs, sem raðaði inn mörkunum í Lengjudeildinni í fyrra, komst nálægt því að skora um miðbik hans en Þórður Ingason í marki Víkinga varði frábælega.

Lokatölur 1-0 fyrir Víkinga sem setja þrjú stig á töfluna. Keflvíkingar þurfa að bíða eftir sínum fyrstu stigum.

Víkingur R. 1 - 0 Keflavík
1-0 Sölvi Geir Ottesen Jónsson ('19 )
Lestu nánar um leikinn

Breiðablik 0 - 2 KR
0-1 Óskar Örn Hauksson ('11 )
0-2 Kennie Knak Chopart ('15 )
Lestu nánar um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner