Liverpool hefur mikinn áhuga á þýska vængmanninum, Karim Adeyemi, sem er á mála hjá Borussia Dortmund í Þýskalandi, en þetta segir Bild.
Adeyemi er 22 ára gamall og með heitustu leikmönnum Evrópu, en hann kom til Dortmund frá Salzburg fyrir tveimur árum.
Leikmaðurinn skoraði þrennu í 7-1 sigri Dortmund á Celtic í Meistaradeildinni í gær og er kominn með alls fimm mörk á tímabilinu til þessa.
Þýski miðillinn Bild segir enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool fylgjast náið með Adeyemi. Njósnarar félagsins hafa verið á leikjum Dortmund á þessu tímabili og er félagið talið reiðubúið að leggja fram 42 milljóna punda tilboð í leikmanninn.
Mohamed Salah, lykilmaður Liverpool, verður samningslaus á næsta ári og algerlega óvíst hvort hann geri nýjan samning. Heldur því Bild því fram að Adeyemi gæti verið arftaki Salah.
Athugasemdir