Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fös 03. mars 2023 12:51
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sandra leggur hanskana á hilluna (Staðfest)
Varð Íslands- og bikarmeistari á síðasta tímabili sínu.
Varð Íslands- og bikarmeistari á síðasta tímabili sínu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Upplifði drauminn í fyrra að spila á stórmóti.
Upplifði drauminn í fyrra að spila á stórmóti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmarkvörðurinn Sandra Sigurðardóttir tilkynnti með færslu á Instagram að hún væri búinn að leggja skóna og hanskana á hilluna. Sandra segir ákvörðunina eina sá erfiðustu sem hún hafi tekið en að sama skapi væri ákvörðunin góð.

Sandra er 36 ára gömul og hefur verið aðalmarkvörður landsliðsins undanfarin fjögur ár. Alls á hún að baki 49 landsleiki, hefur farið með landsliðinu á fjögur stórmót en það var ekki fyrr en síðasta sumar sem hún spilaði sinn fyrsta leik á stórmóti. Hún stóð sig vel á EM og var á síðasta ári í 6. sæti í kosningu um íþróttamann ársins.

Sandra hefur varið mark Vals síðustu sjö tímabil og var þar áður hjá Stjörnunni. Hún hóf þó meistaraflokksferil sinn með Þór/KA/KS, fjórtán ára gömul sumarið 2001 og var í kjölfarið aðalmarkvörður liðsins í þrjú tímabil áður en hún fór í Garðabæinn þar sem hún var svo í ellefu tímabil.

Á sínu síðasta tímabili á ferlinum varð Sandra bæði Íslands- og bikarmeistari með Val. Alls vann hún þrjá Íslandsmeistaratitla með Stjörnunni og þrjá bikarmeistaratitla. Hjá Val varð hún svo þrisvar sinnum Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari. Hún lýkur ferlinum sem leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi, með alls 331 leiki spilað.

Hún afrekaði einnig að skora tvö mörk á ferlinum, bæði úr vítaspyrnum sem leikmaður Stjörnunnar.

„Jæja.. Eftir miklar vangaveltur, andvökunætur og allskonar pælingar hef ég tekið þá ákvörðun að leggja skóna og hanskana á hilluna! Ákvörðunin er mjög svo erfið, ein sú erfiðasta sem ég hef tekið en að sama skapi er hún góð. Ég er gríðarlega stolt af því sem ég hef áorkað á mínum ferli, bæði sem einstaklingur og með mínum liðum! Ég er þakklát fyrir allar þær dýrmætu stundir og ævintýri sem ég hef upplifað, þau hlutverk sem ég hef fengið, fyrir alla þá sem ég hef unnið með á einn eða annan hátt, þann dýrmæta vinskap sem hefur myndast og fylgir mér að eilífu og fyrir allan þann stuðning sem ég hef fengið frá fólkinu mínu öllu - við ykkur segi ég TAKK! Ég hlakka til að byrja næsta kafla í mínu lífi og takast á við þau ævintýri sem bíða mín!
Takk fyrir mig!,"
skrifar Sandra í færslu sinni.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner