Englendingurinn Luke Shaw er kominn aftur á meiðslalista Manchester United, aðeins nokkrum vikum eftir að hafa snúið aftur úr meiðslum. Hann segir þetta langerfiðasta kafla ferilsins til þessa.
Shaw hefur lítið komið við sögu hjá United síðustu tvö tímabil. Alls hefur hann spilað 14 deildarleiki á þessum tíma og verið mikið frá vegna meiðsla.
Simon Stone hjá BBC sagði frá því í gær að Shaw væri kominn aftur á meiðslalistann og að hann yrði frá næstu vikurnar, en leikmaðurinn staðfesti þær fregnir sjálfur á Instagram.
Varnarmaðurinn segist niðurbrotinn en hefur sett sér markmið um að leggja sig allan fram til að snúa sem fyrst aftur á völlinn.
„Hæ, allir. Það særir mig mikið að þurfa að skrifa þetta þar sem ég hélt að ég væri búinn að komast í gegnum undanfarna erfiðleika og var kominn á jákvæða leið fram á við, en því miður kom smá bakslag. Ég hef gengið í gegnum margt, hæðir og lægðir, en þetta hefur verið langerfiðasti kaflinn. Ég er algerlega niðurbrotinn og á þessu augnabliki er ótrúlega erfitt að sætta sig við raunveruleikann.“
„Ég skil að fólk verður svekkt, reitt, vonsvikið. Enginn finnur meira fyrir því en ég sjálfur. Ég get hins vegar lofað ykkur því að ég mun gera allt sem ég get til að koma til baka sem fyrst til að hjálpa félaginu að ná markmiðum tímabilsins. Takk allir fyrir stuðninginn. Hann hefur ekki farið framhjá mér og ég er ótrúlega þakklátur fyrir hann,“ sagði Shaw.
Athugasemdir