Luke Shaw, leikmaður Manchester United, verður ekki með liðinu næstu vikurnar vegna meiðsla, en þetta segir Simon Stone hjá BBC.
Englendingurinn hefur verið óheppinn með meiðsli á ferlinum en hann hefur aðeins spilað 193 deildarleiki á ellefu tímabilum sínum með United.
Á síðustu tveimur tímabilum hefur hann spilað 14 deildarleiki en hann fór inn í þetta tímabil meiddur og sneri ekki aftur á völlinn fyrr en í lok nóvember.
Hann hafði komið þrisvar sinnum inn af bekknum en er nú kominn aftur á meiðslalistann. Samkvæmt Stone verður hann frá næstu vikur en hann talar um að þetta séu ekki gömul meiðsli sem eru að taka sig upp aftur, heldur ný.
Manchester United heimsækir Arsenal á Emirates-leikvanginn á morgun en liðið náði í sinn fyrsta deildarsigur undir stjórn Ruben Amorim um helgina er liðið hafði betur gegn Everton, 4-0, á Old Trafford.
Athugasemdir