sun 05. febrúar 2023 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Gæti orðið markahæsti leikmaður síðustu 60 ára
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Norski sóknarmaðurinn Erling Braut Haaland er á góðri leið með að bæta öll markamet ensku úrvalsdeildarinnar en hvernig stendur hann í samanburði við markaskorara gömlu tímanna þegar fótbolti var allt öðruvísi leikur?

Ólíklegt er að Haaland takist að bæta markamet efstu deildar enska boltans frá upphafi, sem Dixie Dean setti fyrir tæplega 100 árum síðan.

Dixie, sem skoraði 18 mörk í 16 landsleikjum fyrir England, var lykilmaður í sóknarlínu Everton og átti eitt ótrúlegt tímabil 1927-1928 þar sem hann skoraði 60 mörk í 39 leikjum.

Haaland er kominn með 25 mörk í 19 leikjum á sínu fyrsta tímabili á Englandi, en til samanburðar var Dixie búinn að gera 30 mörk á sama tímapunkti fyrir 95 árum.

Það virðist enginn vafi leika á því hvort Haaland takist að bæta markamet Andy Cole og Alan Shearer í ensku úrvalsdeildinni, nema að norska markavélin verði fyrir meiðslum. Cole og Shearer skoruðu 34 mörk en Haaland er aðeins 9 mörkum frá því meti, með 18 leiki eftir af leiktíðinni.

Það gæti þó verið erfiðara að toppa Dixie, leikmann sem Bill Shankly talaði um sem snilling á sama stigi og heimsfrægu listamennirnir Beethoven, Shakespeare og Rembrandt.

Það hefur enginn komist nálægt markameti Dixie frá því að hann setti það, Tom Waring skoraði 49 mörk tímabilið 1930-31 en annars hafa örfáir komist yfir 40 mörk á tímabili í sögu efstu deildar á Englandi. 

Haaland gæti orðið fyrsti leikmaðurinn til að bætast við þann fámenna hóp síðan Jimmy Greaves gerði það fyrir meira en 60 árum síðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner