Erling Haaland var hress eftir að hafa skorað eina mark leiksins í sigri Manchester City gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Hann svaraði spurningum að leikslokum og ræddi meðal annars um markið sem hann skoraði, þar sem hann hafði betur í líkamlegri baráttu við Sepp van den Berg áður en hann setti boltann í netið.
„Fyrstu fimm mínútur leiksins var Van den Berg stöðugt að ýta mér svo ég ákvað að taka slaginn og byrjaði að ýta honum til baka. Þetta er eitt af betri mörkum sem ég hef skorað. Ég var svolítið þreyttur fyrir leikinn en það tók hann tíu sekúndur að kveikja í mér með öllum þessum hrindingum," sagði Haaland, sem er í kappi við Harry Kane og Kylian Mbappé um að vera markahæsti leikmaður tímabilsins í sterkustu deildum Evrópu.
Haaland og Mbappé eru jafnir með 9 mörk sem stendur, en Kane er í ótrúlegu formi og er kominn með 11 mörk í færri leikjum heldur en keppinautar sínir.
„Þeir eru báðir að gera frábæra hluti og ég þarf að spýta í lófana til að halda í við þá. Ég er mjög ánægður að markið mitt hafi skilað sigri, við þurfum á stigunum að halda. Þetta var erfiður leikur og leikstíllinn þeirra minnti mig mikið á hvernig Stoke City spilaði fyrir 15 árum með Rory Delap að taka löng innköst. Þeir eru með mjög hávaxið lið og eru líkamlega sterkir. Við vorum sem betur fer tilbúnir í þetta þökk sé starfsteyminu sem sagði okkur nákvæmlega við hverju við áttum að búast og hvernig væri best að takast á við andstæðingana. Teymið á stórt hrós skilið."
Haaland bætti því einnig við að sér hafi aldrei liðið jafn vel á ferlinum. Hann þakkar syni sínum sérstaklega fyrir.
„Ég er orðinn betri eftir að ég eignaðist krakka, hann hjálpar mér að aftengja frá fótboltanum þegar ég kem heim. Það hjálpar mér að slaka á og gerir mig að betri leikmanni."
Athugasemdir