Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   mán 05. desember 2022 14:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Andri Rúnar á förum frá ÍBV - Fjölskyldan flutt á höfuðborgarsvæðið
Andri Rúnar Bjarnason.
Andri Rúnar Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri fagnar marki í sumar.
Andri fagnar marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Sóknarmaðurinn Andri Rúnar Bjarnason er að öllum líkindum á förum frá ÍBV. Fjölskylda hans er flutt á höfuðborgarsvæðið og mun hann því ekki leika í Vestmannaeyjum næsta sumar.

Andri gekk í raðir ÍBV síðasta vetur og skrifaði þá undir tveggja ára samning við félagið.

„Fjölskyldan er flutt í bæinn. Við vorum að skoða leiðir, hvort það væri möguleiki að ég gæti verið áfram. En það er ólíklegt að það muni ganga eftir þar sem konan mín er ólétt. Við erum að fara að eignast okkar annað barn. Við erum búin að taka samtölin og við erum eiginlega allir sammála um að það sé best að fjölskyldan fái að ganga fyrir í þetta skiptið," segir Andri í samtali við Fótbolta.net.

„Við erum að klára að skoða hvernig við ætlum að klára þetta, ÍBV og ég."

Andri var að glíma við meiðsli á tímabilinu sem var að líða en samt sem áður tókst honum að skora tíu mörk í 25 leikjum.

„Tímabilið var skemmtilegt. Það var gaman að ná að snúa við blaðinu svona. Það var kannski búið að dæma okkur eftir fyrri hlutann. Það var gaman að sýna seinni hlutann hversu góðir við værum. Persónulega var það erfitt fyrir mig að byrja seint út af meiðslum og ná upp alvöru formi. Ég get verið sáttur við að skila tíu mörkum á þannig tímabili. Heilt yfir var þetta gott sumar þrátt fyrir erfiða byrjun."

Aðspurður um stöðuna á sér líkamlega þá segir hann: „Ég er fyrst og fremst að vinna í því. Þess vegna er ég kannski ekki að flýta mér í því að ræða við félög. Ég ætla að ná mér í gott stand líkamlega, fyrst og fremst. Fótboltinn er ekki eitthvað sem ég er að fara að gleyma á næstu mánuðum."

Sumarið 2017 jafnaði hann markametið í efstu deild með því að skora 19 mörk í 22 leikjum fyrir Grindavík. Í kjölfarið lék hann með Helsingborg í Svíþjóð, Kaiserslautern í Þýskalandi og Esbjerg í Danmörku. Það verður fróðlegt að sjá hvar hann spilar næsta sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner