Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var sáttur með 5-2 sigurinn á Grindavík í Pepsi Max-deildinni í kvöld en KR er með þrettán stiga forystu á toppnum eftir fimmtán umferðir.
„Ég er ánægður með þrjú stig og fimm mörk og frábæran sóknarleik hjá okkur í dag. Við spiluðum hratt á milli okkar og náðum að opna þá trekk í trekk. Eina sem ég er ósáttur er mörkin sem við fengum á okkur en fyrir vikið skemmtilegt fyrir áhorfendur að fá sjö mörk," sagði Rúnar við Fótbolta.net.
Kristján Flóki FInnbogason samdi við KR á dögunum en hann kemur frá Start. Hann var ekki lengi að stimpla sig inn en hann var með mark og stoðsendingu í dag.
„Hann var mjög góður í dag og smellpassar inn í þetta. Hann þekkir þennan leik vel, er klár fótboltamaður, skynsamaður og búinn að bæta sig erlendis undanfarin ár og mikill fengur fyrir okkur. Hann skorar mark og leggur upp mark mjög vel. Hann er sterkur í loftinu og tekur mikið til sín."
Það er mikil samkeppni í KR-liðinu en hann segir að allir leikmenn séu í þessu saman og að það sé enginn fúll yfir því að sitja á tréverkinu.
„Það eykur þann hausverk sem fyrir var. Við viljum hafa samkeppni og á meðan menn eru í heiðarlegri samkeppni og vinna í því saman alla vikuna að ná árangri fyrir KR þá er þetta í góðu lagi. Það er enginn fúll yfir því að sitja á bekknum þá menn eigi kannski aðeins að vera það."
KR er eins og áður segir með þrettán stiga forystu þegar liðið á sjö leiki eftir en það er enginn að fara fram úr sér í vesturbænum.
„Nei, alls ekki. Við eigum fullt af leikjum eftir og það er fullt af stigum í pottinum sem okkur langar í. Við förum í Kórinn og spilum við HK sem er heitasta liðið í dag," sagði hann ennfremur en viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir