Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
banner
   þri 06. ágúst 2024 15:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Carragher: Hefðu verið góð kaup fyrir Liverpool
Anthony Gordon.
Anthony Gordon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kantmaðurinn Anthony Gordon var ekki langt frá því að ganga í raðir Liverpool í sumar og Jamie Carragher, fyrrum leikmaður liðsins, er svekktur með að það hafi ekki gengið eftir.

Newcastle þurfti að selja leikmenn til að standast reglur ensku úrvalsdeildarinnar og hafði rætt þann möguleika við Liverpool að fá Joe Gomez í skiptum fyrir Gordon. Newcastle hefði þá borgað 45 milljónir punda fyrir Gomez á meðan Liverpool hefði borgað 75 milljónir punda fyrir Gordon.

Það hefði hjálpað Newcastle að rétta bókhaldið af og Liverpool samþykkti þessa hugmynd í skamman tíma, en Newcastle fann svo aðrar leiðir til að koma bókhaldinu í lag. Félagið seldi Elliot Anderson til Nottingham Forest og Yankuba Minteh til Brighton fyrir stórar upphæðir.

„Ég tel að þetta hefðu verið góð kaup fyrir Liverpool," segir Carragher. „Ég er mikill aðdáandi og trúi því ekki að hann hafi ekki fengið fleiri tækifæri með enska landsliðinu."

„Hann er með gríðarlegan hraða til að skilja varnarmenn eftir og það eru ekki margir í heiminum sem geta það eins og hann. Ég er mikill aðdáandi en hann er hjá góðu félagi núna."

Carragher vonast til þess að Liverpool reyni aftur við Gordon en það er ólíklegt að Newcastle sé tilbúið að selja núna. Staðarmiðillinn Chronicle segir að Newcastle ætli að reyna að endursemja við Gordon í sumar og bjóða honum betri kjör til þess að hann verði ánægðari hjá félaginu.
Athugasemdir
banner
banner
banner