Real Madrid vill Rodri, Trent og Saliba - Karim Adeyemi orðaður við Man Utd - Newcastle vill Gomes
   þri 06. ágúst 2024 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mikael segir kveðjurnar kaldar - „Ekki að mæta hér til að ljúga"
Mikael Nikulásson.
Mikael Nikulásson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikael og Rikki G voru saman með liðið í leik gegn Víkingi Ólafsvík.
Mikael og Rikki G voru saman með liðið í leik gegn Víkingi Ólafsvík.
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Var rekinn um verslunarmannahelgina.
Var rekinn um verslunarmannahelgina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KFA fagnar marki.
KFA fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mikael Nikulásson var í gær rekinn frá KFA eftir að hafa stýrt liðinu frá því nóvember 2022. Þetta var hans annað tímabil með liðið en eftir að hafa verið hársbreidd frá því að komast upp í fyrra eru þeir í hörkuséns að fara upp í ár.

Eggert Gunnþór Jónsson, sem hefur verið aðstoðarmaður Mikaels í sumar, mun stýra liðinu út tímabilið.

Mikael ræddi um málið í hlaðvarpsþætti sínum, Þungavigtin, í gær og sagði þar að hann hefði verið rekinn úr starfinu.

„Það vita svo sem allir að ég er ekki búinn að vera brjálæðislega sáttur við umgjörð liðsins og hvernig er staðið að þessu. Þegar þetta kemur upp, þá er fyrsta tilfinning sú að það sé verið að reka mig úr stjórn félagsins frekar en sem þjálfara. Ég gerði allt þarna og ég er ekki að segja það til að setja mig á háan hest. Það vita það allir sem vilja vita," sagði Mikael í Þungavigtinni.

Það vakti athygli í þriðja seinasta leik Mikaels við stjórnvölinn að einungis Rikki G var með honum á skýrslu þegar liðið mætti Víking Ólafsvík í sannkölluðum sex stiga toppbaráttuslag. Mikael var spurður út í það eftir Víkingsleikinn af hverju hann væri ekki með sjúkraþjálfara, liðstjóra eða eitthvað slíkt með sér. „Þú verður að spyrja einhvern annan en mig með það. Ég er bara einn hérna og það er enginn með mér," sagði Mikael þá.

„Þetta eru endalaus ferðalög, endalaust hitt og þetta og þetta fær maður í andlitið. Áhuginn enginn. Auðvitað fór þetta í taugarnar á mér en ég hélt samt mínu striki. Þarna gátum við náð fimm stiga forskoti í öðru sæti en ég þarf að fá þig á bekkinn til að vera ekki einn. Það er bara enginn áhugi. Við töpum þeim leik og það var bara 50/50 leikur að mínu mati. Við förum svo á Selfoss og þar erum við miklu betri, en sóknarlega erum við ekki góðir. Þeir vinna 1-0 með skoti af 35 metra færi en það var ekki sanngjarn sigur. Svo er það þessi leikur gegn Reyni og ef við hefðum spilað hann 20 sinnum 11 á móti 11, þá hefðum við sennilega unnið hann 20 sinnum. En við vorum ekki góðir í þeim leik," segir Mikael.

„Auðvitað er maður pirraður eftir svoleiðis dæmi og lætur eitthvað flakka, en svo sofa menn úr sér og ræða málin daginn eftir. En málin voru ekkert rætt. Það var ekkert samkomulag okkar á milli eins og menn eru að gefa í skyn. Ég er ekki að mæta hér til að ljúga. Og ég er ekki heldur að mæta hér til að hrauna yfir menn, þetta eru vinir mínir. Ég var bara látinn fara."

Það liggur eitthvað annað að baki
Hann telur að það liggi eitthvað meira að baki en bara úrslit.

„Menn í stjórn KFA vilja bara meina það að þeir séu með það gott lið að þeir eiga að vera að rúlla yfir 2. deildina. Ég er svo langt því frá sammála því," segir Mikael. „Við vorum með betra lið í fyrra en núna, það er klárt. Menn þurfa að hafa eitthvað vit á þessu."

„Núna er KFA einu stigi frá því að fara upp í 1. deild. Við ættum að vera í öðru sæti. Ég er sammála því og sammála því að leikurinn gegn Reyni var ekki góður. En auðvitað liggur eitthvað allt annað að baki. Í fyrsta sinn tapast þrír leikir í röð og tveir af þeim gegn toppliðunum. Það liggur eitthvað annað að baki og ég myndi segja hvað það væri ef ég vissi það, en ég veit það bara ekki."

„Þið þekkið mig alveg. Ég læt alveg í mér heyra og læt ekkert vaða yfir mig. Ég er reynslunni ríkari af fullt af hlutum ef ég tek að mér næsta þjálfarastarf. Það er ekki þannig ef þú tekur að þér þjálfarastarf að 40 prósent af tímanum geti farið í það starf og 60 prósent í eitthvað annað því enginn annar gerir neitt, eða lítið. Þetta voru kaldar kveðjur, en ég ætlaði ekki að vera áfram eftir tímabilið."

Fótbolti.net leitaðist eftir svörum frá KFA vegna brottrekstursins og þessara ummæla Mikaels í dag en forsvarsmenn félagsins vildu ekki tjá sig að svo stöddu.
2. deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Selfoss 22 16 3 3 51 - 27 +24 51
2.    Völsungur 22 13 4 5 50 - 29 +21 43
3.    Þróttur V. 22 13 3 6 58 - 33 +25 42
4.    Víkingur Ó. 22 12 6 4 50 - 30 +20 42
5.    KFA 22 11 2 9 52 - 46 +6 35
6.    Haukar 22 9 3 10 40 - 42 -2 30
7.    Höttur/Huginn 22 9 3 10 41 - 50 -9 30
8.    Ægir 22 6 7 9 29 - 35 -6 25
9.    KFG 22 6 5 11 38 - 43 -5 23
10.    Kormákur/Hvöt 22 5 4 13 19 - 42 -23 19
11.    KF 22 5 3 14 26 - 50 -24 18
12.    Reynir S. 22 4 3 15 28 - 55 -27 15
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner