Íslandsmeistarinn Matthías Vilhjálmsson segist vera á krossgötum á ferli sínum og hefur ekki tekið ákvörðun hvort hann ætli að leggja skóna á hilluna eftir tímabil. Matthías er 38 ára gamall og hefur komið við sögu í 14 deildarleikjum Víkings á tímabilinu, mbl.is greinir frá.
„Málið er að ég er á krossgötum, ég hef verið með allan fókusinn á að vinna þennan titil með Víkingi og er ekki búinn að ákveða neitt. Ég ætla að taka mér góðan tíma í það, hvort mig langi til að spila áfram, hvort ég ætli að hætta, hvort mig langi að spila og fara að þjálfa, eða snúa mér að einhverju allt öðru.“
„Með því að vinna þennan titil höfum við tryggt okkur meistaraleiðina í Evrópukeppninni á næsta ári þannig að það er margt sem kemur til greina," sagði Matthías Vilhjálmsson.
Matthías hefur nú unnið alls fjórtán titla á ferlinum.
„Þetta er geggjað. Ég er afar stoltur af mínum ferli en þessi tímapunktur, að gera þetta á mínum aldri með svona ótrúlega góðu liði og að mínu mati einu af bestu liðum Íslandssögunnar, eru bara forréttindi.“