Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 07. febrúar 2023 17:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
„Svo svaraði umboðsmaðurinn tölvupóstinum frá mér"
Nýr leikmaður Njarðvíkur var á lista með Andra Lucas, Gvardiol, Camavinga og Pedri
Lengjudeildin
Luqman Hakim.
Luqman Hakim.
Mynd: Njarðvík
Arnar Hallsson, þjálfari Njarðvíkur.
Arnar Hallsson, þjálfari Njarðvíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með landsliði Malasíu.
Í leik með landsliði Malasíu.
Mynd: Getty Images
Njarðvík fór með sigur af hólmi í 2. deild síðasta sumar.
Njarðvík fór með sigur af hólmi í 2. deild síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vincent Tan.
Vincent Tan.
Mynd: Getty Images
Úr leik hjá Njarðvík síðasta sumar.
Úr leik hjá Njarðvík síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Njarðvíkingar mæta galvaskir í Lengjudeildina í sumar.
Njarðvíkingar mæta galvaskir í Lengjudeildina í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - RMV
„Það var andvökunótt," segir Arnar Hallsson, þjálfari Njarðvíkinga, í samtali við Fótbolta.net er hann er spurður að því hvernig nýjasti leikmaður félagsins hafi í græna búningnum.

Njarðvík tilkynnti í gær að félagið hefði náð samkomulagi við belgíska úrvalsdeildarfélagið K.V. Kortrijk um að fá framherjann Luqman Hakim lánaðan út Lengjudeildina 2023. Um er að ræða mjög spennandi leikmann en hann var á lista Guardian árið 2019 yfir efnilegustu fótboltamenn í heimi.

Á þeim lista voru líka leikmenn eins og Eduardo Camavinga, Josko Gvardiol og Pedri. Og jú, Andri Lucas Guðjohnsen.

Það má með sanni segja að Hakim sé vonarstjarna í heimalandi sínu, Malasíu, en félagaskipti hans til Íslands hafa vakið mikla athygli. Þau hafa fengið mikil viðbrögð á samfélagsmiðlum og er til að mynda búið að stofna stuðningsmannaklúbb Njarðvíkur í Malasíu. Sá stuðningsmannahópur er nú þegar með meira en tíu þúsund fylgjendur.

Það er mikil eftirvænting fyrir leikmanninum sem endaði í Njarðvík fyrir mikla tilviljun.

„Ég var erlendis, í Colorado í heimsókn hjá syni mínum. Við vorum búnir að vera að leita að leikmönnum og höfðum ekki verið að hitta á það sem við vildum. Ég byrjaði að gúggla fullt af umboðsmönnum og svo sendi ég fullt af tölvupóstum. Svo svaraði umboðsmaður þessa leikmanns tölvupóstinum frá mér."

„Þá er það þannig að þessi strákur er fastur á vondum stað hjá félagi sínu. Hann er ekki alveg nógu góður til að vera í aðalliðinu en alltof góður fyrir U23 liðið. Þá vantaði gott verkefni fyrir leikmanninn. Við ræddum við ráðgjafa leikmannsins og gerðum samning við félagið úti að við myndum setja upp ákveðin markmið um það hvernig við getum hjálpað honum að verða betri svo hann geti nýst þeim. Þetta er búið að taka næstum því þrjá mánuði. Það var tilviljun að ég datt niður á þennan umboðsmann og tilviljun að þeir voru akkúrat á þeim stað að leita að hentugu verkefni fyrir strákinn."

„Það er lán að tímabilið á Íslandi er skakkt á við tímabilið erlendis. Það hjálpaði líka að segja frá því að (Marciano) Aziz hafi komið til Aftureldingar frá Belgíu og það hafi gengið vel fyrir hann. Kortrijk vilja að leikmaðurinn verði eins góður og hann geti orðið. Þeirra skoðun er sú að hann verði betri ef hann spilar við aðeins meira krefjandi aðstæður en eru hjá þeim í U23 liðinu."

Á að geta orðið sigur fyrir alla
Arnar er búinn að horfa á leikmanninn spila nokkra leiki og segir að það búi heilmikið í honum. Hakim er tvítugur að aldri og getur spilað bæði á kanti og sem fremsti maður.

„Ég er búinn að horfa á nokkra leiki með honum og hann er kvikur, með gott knattrak og hefur skorað mikið í yngri landsliðum og fyrir U23 liðið þeirra líka. Það býr heilmikið í honum en svo er þetta eins og alltaf, hann þarf að grípa þau tækifæri sem koma. Hann þarf að læra inn á hvernig við gerum hlutina og við þurfum að læra á það hvernig hann spilar. Þá vonandi gengur þetta vel upp fyrir alla; við fáum góðan leikmann, hann fær góða reynslu og félagið hans fær betri leikmann til baka. Þetta á að geta orðið sigur fyrir alla."

Þegar Arnar er spurður út í bestu stöðu leikmannsins segir hann:

„Hann hefur verið að spila mest sem fremsti maður. Þetta er svona klassískur yngri flokka senter sem er fljótur. Þeir sem eru þokkalega fljótir og ógna mikið inn fyrir, þeir skora eins og enginn sé morgundagurinn þangað til þeir koma upp að ákveðnu getuþrepi. Hluti af því sem ég lagði á borðið var það að við erum bæði að spila með tvo frammi og þrjá frammi. Þá þarf hann að gera bæði, að því gefnu að hann standi sig og komist í liðið eins og ég á frekar von á. Hann þarf þá að læra það að spila upp á topp með öðrum senter og sem vængmaður þegar við spilum með þrjá frammi."

Talsvert fyrir utan þann launapakka
Það var áhugi á leikmanninum frá öðrum félögum en Njarðvík var fyrir valinu en það tók langan tíma að koma þessu yfir línuna þó leikmaðurinn hafi alltaf verið spenntur fyrir því að koma yfir til Íslands.

„Ég tók fund nokkuð snemma með leikmanninum og hans ráðgjöfum. Hann varð eiginlega strax klár í að koma, en það voru önnur félög sem vildu fá hann. Það tók tíma að sannfæra félagið, það tók tíma að ná samkomulagi um það hvernig ætti að byggja svona samning upp vegna þess að leikmaður í úrvalsdeild í Belgíu er talsvert út fyrir þann launapakka sem er í næst efstu deild á Íslandi," segir Arnar.

„Ég held að mér hafi tekist að sannfæra þá um það að ég gæti hjálpað honum að verða betri leikmaður, bæði með tækifærum í liðinu og svo hvernig við vinnum með okkar hluti. Þeir höfðu trú á því að þetta gæti gengið. Hluti af þessu er það að það verða stöðug samskipti á milli mín og félagsins um það hvernig gengur að ná þeim markmiðum sem þeir hafa sett fyrir leikmanninn á þessum tíma."

„Ég held að þetta sé gott fyrir alla - fyrir Njarðvík, leikmanninn og fyrir íslenskan fótbolta. Ég held að íslenskur fótbolti sé góður fyrir leikmenn sem eru ekki alveg nógu góðir til að vera inni sem aðalliðsmenn erlendis en þurfa að spila keppnisfótbolta. Maður sér það á þeim strákum sem hafa komið heim í Víking; Júlíus, Kristall, Atli og allir þessir strákar sem hafa komið heim og farið út aftur. Það kemur ekkert í staðinn fyrir það að spila og fá sjálfstraust."

Vincent Tan valdi Njarðvík
Vincent Tan er eigandi Kortrijk í Belgíu, en hann er líka eigandi Cardiff. Tan er skrautlegur karakter en hann og Hakim eru báðir frá Malasíu. Tan hefur miklar mætur á leikmanninum og það var á endanum hann sem valdi Njarðvík fram yfir önnur félög.

„Þetta var þannig að hann - ef ég skil umboðsmann leikmannsins rétt - að það er Vincent Tan sem tekur ákvörðunina um að hann kemur til okkar. Ég hafði engin samskipti við hann, það var ekki þannig. Það var umboðsmaðurinn sem segir það," segir Arnar er hann var spurður að því hvort eigandinn hafi eitthvað komið að málinu.

„Hann endaði hjá okkur og þeir segja að það hafi verið fleiri kostir í stöðunni. Við erum með tímabilið okkar á skjön við þeirra tímabil og það hjálpar líka. Það hjálpar líka að félagið leyfði okkur að tala frekar snemma við leikmanninn. Hann var mjög jákvæður og auðmjúkur fyrir því að koma til Íslands í næst efstu deild. Hann vill bara spila og verða betri. Hann var ekki með neinn hroka varðandi það að þetta væri fyrir neðan hans virðingu. Hann vill bara spila fótbolta, skora mörk og verða betri. Það er það eina sem hann hugsar um."

Var ískalt á sinni fyrstu æfingu
Hakim mætti til landsins í gær og vildi strax mæta á æfingu. Hann fékk þar að kynnast íslenskri veðráttu sem getur verið ansi óútreiknanleg og leiðinleg.

„Það var snarvitlaust veður í gær. Hann mætti á æfingu og var skítkalt. Við höfðum eiginlega áhyggjur af því að hann myndi fara aftur. Það var eins ógeðslegt og það verður, veðrið. Ég held að hann komi á æfingu í kvöld," sagði Arnar léttur.

„Hann kom bara klukkan tvö í gær og vildi komast beint á æfingu. Hann tók 50 prósent þátt í æfingunni og honum var skítkalt. Það var brjálað veður, en maður sá að hann var fljótur og hann var með flott knattrak. En maður sá líka að honum var skítkalt."

Tvo leikmenn í viðbót
Njarðvíkingar eru brattir fyrir komandi leiktíð. Þeir eru búnir að bæta nokkrum leikmönnum við sig fyrir tímabilið í Lengjudeildinni en þjálfararnir hafa talað um að markmiðið sé að vera með í efri hluta deildarinnar.

„Við eigum eftir að fá að minnsta kosti tvo leikmenn í viðbót sem eru mjög sterkir. Við verðum sáttir þá en við erum mjög ánægðir með stöðuna á liðinu núna," segir Arnar.

„Það hefur kannski siglt undir radarinn en við fengum í vetur leikmenn sem henta okkur mjög vel; íslenskir strákar sem hafa fallið mjög vel inn í hlutina hjá okkur og svo fengum við Brasilíumann sem mér sýnist vera mjög, mjög góður leikmaður. Mér sýnist að þetta verði framúrskarandi leikmaður fyrir okkur, leikmaður sem okkur vantaði. Við höfum líka verið ánægðir með þá sem við höfum fengið til baka. Oumar Diouck kemur til baka og hann er farinn að líta mjög vel út núna. Robert Blakala líka. Ég er mjög ánægður með þann stað sem við erum á núna en ég veit að við eigum líka ofboðslega mikið inni."

Eins og Arnar nefnir þá krækti Njarðvík í brasilíska miðjumanninn Joao Ananias í vetur. Ætlar félagið að spila brasilískan sambabolta í sumar?

„Í rokinu? Já, er það ekki. Við erum að vinna í því að létta leikstílinn og vinna í því að vera meira með boltann. Við lofum því ef aðstæður leyfa. Ef það lægir einhvern tímann þá getur fólk komið og horft á brasilískan bílastæðafótbolta," sagði Arnar léttur en það er alveg ljóst að Luqman Hakim er leikmaður sem spennandi verður að fylgjast með næsta sumar. Hann verður eflaust einn mest spennandi leikmaður Íslandsmótsins.


Athugasemdir
banner
banner
banner