Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 07. júní 2021 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stuðningssíða Liverpool um Ísak: Svo getum við vonandi fengið hann
Ísak Bergmann Jóhannesson og Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Ísak Bergmann Jóhannesson og Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann Jóhannesson hefur síðustu mánuði verið orðaður við stærstu félög Evrópu. Hann hefur vakið mikla athygli í sænsku úrvalsdeildinni með Norrköping.

Það hafa verið sögusagnir í kringum hann, sögur um Manchester United, Liverpool, Juventus og Real Madrid.

Það hefur hins vegar verið sagt frá því í sænskum fjölmiðlum að Ísak vilji ekki fara í eitt af stærstu félögunum strax. Ísak verður líklega seldur í sumar en hann vill fara í félag þar sem hann fær mikilvægt hlutverk strax.

Skagamaðurinn ungi er til umfjöllunar hjá Rousing The Kop, stuðningsmannasíðu Liverpool, í dag. Liverpool er eitt af þeim félögum sem er sagt áhugasamt um Ísak en liðið hefur verið að kaupa nokkra efnilega leikmenn að undanförnu og má þar til dæmis nefna Harvey Elliott. Elliott var lánaður til Blackburn fyrir tímabilið og stóð sig vel í Championship-deildinni.

Í greininni er sagt: „Ísak er einn heitasti bitinn á evrópskum markaði þessa stundina. Þrátt fyrir að hafa fagnað 18 ára afmæli sínu í mars er hann ómissandi í Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni."

„Leikmaðurinn mun væntanlega kosta 6 milljónir punda, en það er hindrun á veginum; hann vill ekki fara í ensku úrvalsdeildina vegna þess að hann vill spila byrjunarliðsfótbolta. Liverpool þarf að lofa honum byrjunarliðsfótbolta."

„Hann er klárlega með sérstaka hæfileika en við sjáum ekki fyrir okkur að 18 ára strákur taki skrefið úr sænsku úrvalsdeildinni og beint í byrjunarlið Liverpool strax. Vonandi fer hann fyrst í minna félag og svo getum við fengið hann."


Ísak er stuðningsmaður Manchester United en hann hefur ekki útilokað að spila fyrir Liverpool eða Manchester City ef það tækifæri gefst í framtíðinni. Faðir hans, Jóhannes Karl Guðjónsson, er stuðningsmaður Liverpool.

Ísak, sem er 18 ára, er núna í verkefni með A-landsliði karla. Hann átti mjög góðan leik gegn Mexíkó og gæti byrjað sinn þriðja leik í röð þegar liðið mætir Póllandi á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner