Charlton Athletic hefur staðfest að SE7 Partners sé að ganga frá kaupum á félaginu frá danska auðkýfingnum Thomas Sandgaard.
Búið er að skrifa undir kaupsamning en núna tekur næsta skref við, þar sem stjórn ensku neðrideildanna þarf að samþykkja eigendaskiptin. Það ferli getur tekið nokkurn tíma og fær Charlton ekki að styrkja leikmannahópinn sinn á meðan.
Charlton leikur í ensku C-deildinni eftir að hafa endað í tíunda sæti á síðustu leiktíð, heilum fimmtán stigum frá umspilssæti. Stuðningsmenn félagsins er ósáttir með að dúsa í C-deildinni og sakna tímans úr efstu deild, þar sem liðið lék frá 1998 til 2007.
Nýir eigendur eru þegar búnir að setja markmið fyrir bæði karla- og kvennalið félagsins fyrir tímabilið. Karlaliðið stefnir á að ná umspilssæti í C-deildinni á meðan kvennaliðið stefnir á að bæta árangur sinn frá því síðustu leiktíð.