Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 07. júní 2023 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Milan vill Pulisic og Roma bauð Ndicka samning
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images

AC Milan vinnur hörðum höndum að því að styrkja leikmannahópinn sinn fyrir komandi tímabil eftir vonbrigðatímabil í ítölsku deildinni.


Milan varð óvænt Ítalíumeistari í fyrra undir stjórn Stefano Pioli en mistókst herfilega að verja titilinn. Liðið komst alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu en tapaði þar fyrir hatrömmum nágrönnum sínum í Inter.

Það hafa verið mikilvægar breytingar innan stjórnar félagsins á dögunum þar sem Paolo Maldini og Ricky Massara voru báðir reknir. Nú þarf Gerry Cardinale eigandi að ráða nýja stjórnendur í þeirra stað.

Milan er að missa Brahim Diaz til Real Madrid eftir þrjú ár í ítalska boltanum en félaginu tókst þó að semja við stjörnuleikmann sinn Rafael Leao sem var gífurlega eftirsóttur.

Nú er bandaríski kantmaðurinn Christian Pulisic sterklega orðaður við Milan en Juventus og Napoli eru einnig áhugasöm. Chelsea er talið vera reiðubúið til að selja leikmanninn fyrir 20 milljónir punda, en hann á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við enska úrvalsdeildarfélagið.

Paolo Maldini vildi ólmur krækja í enska miðjumanninn Ruben Loftus-Cheek frá Chelsea en þau áform hafa verið sett á bið eftir brottrekstur hans úr stjórn félagsins.

Þá er einnig ýmislegt að frétta úr herbúðum AS Roma sem er búið að semja við sóknarsinnaða miðjumanninn Houssem Aouar og er einnig búið að bjóða franska miðverðinum Evan Ndicka fimm ára samning.

Ndicka er samningslaus eftir fimm ár hjá Eintracht Frankfurt en hann hefur verið orðaður við félög á borð við Barcelona, Arsenal og Liverpool undanfarna mánuði.

Það sem Roma hefur framyfir fyrrnefnd stórlið er að félagið getur boðið varnarmanninum fastasæti í byrjunarliðinu.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner