Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fös 07. júlí 2017 16:15
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
VAR kjánahrollur
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
VAR-dómararnir fylgjast með.
VAR-dómararnir fylgjast með.
Mynd: Getty Images
Segðu áhorfendum að bíða, ég er farinn að horfa á video.
Segðu áhorfendum að bíða, ég er farinn að horfa á video.
Mynd: Getty Images
 Roberto Rosetti skoðar VAR tæknina.
Roberto Rosetti skoðar VAR tæknina.
Mynd: Getty Images
Það eru skiptar skoðanir á myndbandsdómgæslu í fótbolta, eða VAR eins og tæknin er kölluð erlendis. Sama hvaða skoðun þú hefur þá verður myndbandsdómgæsla í stærstu fótboltamótunum hluti af framtíðinni.

FIFA er að dæla ógrynni af peningum í að þróa þessa tækni og spurningin ekki hvort heldur hvenær hún verður orðinn sjálfsagður hluti af fótboltanum eins og marklínutækni og sprotadómarar.

Þau ykkar sem fylgdust með Álfukeppninni (skil vel ef þið gerðuð það ekki) urðuð heldur betur var við VAR.

Teymi myndbandsdómara, með úsbekann Ravshan Irmatov fremstan í flokki, kom sér fyrir í reykmettum bakherbergjum á völlunum með fullt af skjám fyrir framan sig.

Þessi fyrsta alvöru frumsýning á VAR var svo misheppnuð að helstu talsmenn tækninnar hjá FIFA hljóta að hafa grátið sig í svefn. Út á við segjast æðstu menn FIFA ánægðir með þessa tilraun en þegar þeir ræða saman auglitis til auglitis þá hrista þeir hausinn.

Það eru þeim mikil vonbrigði hversu ótrúlega ófullkomin þessi tækni er í dag, fínpússun er of veikt orð til lýsa því sem þarf að gera. Í raun virðist vera nokkuð langt í land svo það sé boðlegt að bjóða upp á VAR með þessum hætti.

Aðaldómari leiksins hefur enn helstu völdin og hann ræður því hvenær notast skuli við aðstoð myndbandsdómarana og hvenær ekki. Reyndar virðist FIFA hafa gleymt að funda með mönnunum með flautuna fyrir mót. Þeir virtust engan veginn átta sig á því hvernig og við hvaða aðstæður ætti að beita VAR. Úr urðu mjög kjánalegar og ruglandi aðstæður trekk í trekk.

Stundum var mörgum mínútum eytt í að bíða eftir augljósum úrskurði á atviki sem allir sáu greinilega, stundum ákvað dómarinn ekki að nota tæknina þegar þörfin var sem mest og stundum fékkst röng niðurstaða þó hún hafi verið notuð! Það var átakanlega pirrandi að fylgjast með þessu bulli.

Leikmenn um allan völl voru farnir að mynda kassa með höndunum og heimta að hin og þessi atvik yrðu skoðuð. Nokkur augnablik sem gera fótboltann að vinsælustu íþrótt heims voru einfaldlega eyðilögð. Menn biðu með að fagna marki því fyrst þurfti að skoða það í endursýningu. Þegar því var loks lokið urðu fagnaðarlætin afskaplega þvinguð og óþægileg.

Og oft á tíðum vissu áhorfendur í stúkunni nákvæmlega ekkert hvað var í gangi.

Massimo Busacca, yfirmaður dómaramála hjá FIFA, viðurkenndi eftir Álfukeppnina að það væru ýmsir hlutir í VAR sem þyrftu að vera betri. Hann viðurkenndi einnig að dómararnir væru ekki alveg með þetta á hreinu. Það er þá kannski skiljanlegt að áhorfendur botni hvorki upp né niður.

„Hvað í ósköpunum er í gangi með VAR? Þetta er algjör vitleysa. Það eru reglur í gangi en dómararnir eru ekki að fylgja þeim," sagði Mark Halsey, fyrrum dómari í ensku úrvalsdeildinni.

„Skil enn ekki VAR! Ef þú tekur ákvörðun um að stöðva leikinn þá verður það að vera vegna einhvers sem breytir leiknum!" sagði Luis Garcia, fyrrum leikmaður Liverpool og Spánar.

Fótboltinn verður sífellt hraðari og erfiðari fyrir dómarana. Myndbandstæknin verður notuð í framtíðinni sama hvort fólki líkar betur eða verr. En hún er svo sannarlega ekki tilbúin og vonandi fáum við VAR-laust heimsmeistaramót 2018 eftir það fíaskó sem var í boði í Álfukeppninni.
Athugasemdir
banner